Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 11:28:15 (1585)

2003-11-13 11:28:15# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill tala um önnur mál en ég talaði um í minni ræðu. Ég átti von á því. Þetta umræðuform leyfir það hins vegar ekki að tekið sé upp hér hvert einasta mál. Það hlýtur hv. þm. að sjá ef hann vill hafa einhverja sanngirni en ekki nota megnið af sínum ræðutíma til þess að tala um það sem ekki var talað um.

Það er hins vegar sjálfsagt að tala um Írak og við höfum oft talað um Írak. En væri þá ekki ágætt að hv. þm. talaði líka um ástandið í Írak eins og það var áður? Að hann talaði eitthvað um allar fjöldagrafirnar þar sem hundruð þúsunda manna eru grafnar? Um það hvernig þessu landi var stjórnað með pyndingum og drápum af Saddam Hussein? Telur hv. þm. að alþjóðasamfélagið beri enga ábyrgð gagnvart því, alþjóðasamfélaginu komi það einfaldlega ekki við?

En það ber nú samt þannig við, hv. þm., að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur komist að niðurstöðu um það hvernig skuli staðið að enduruppbyggingu í Írak og alþjóðasamfélagið hefur tekið saman höndum um það mál, eins og t.d. framlagaráðstefnan ber vitni um. Öllu þessu vill hv. þm. gleyma. Hann horfir á gereyðingarvopnin eins og það skipti öllu máli hvort þau finnist eða ekki. Ég hef nú trú á að þau finnist einhvern tíma vegna þess að við vissum að þau voru til. Og í tólf ár var búið að senda ályktun eftir ályktun frá öryggisráðinu um að Saddam Hussein gerði grein fyrir þessum gereyðingarvopnum. Hann gerði það aldrei. Af hverju gerði hann það ekki? Þetta eru líka mikilvæg atriði í þessu annars svo mjög umdeilda og viðkvæma máli.