Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 11:34:51 (1588)

2003-11-13 11:34:51# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[11:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri það. Ég ber umhyggju fyrir því fólki. En ég ber líka umhyggju fyrir því fólki sem líður kvöl og pínu í Írak núna og sem ég með óbeinum hætti sem Íslendingur ber vissa ábyrgð á.

Hæstv. utanrrh. byrjaði á því að vitna í Halldór Laxness. Hann hefði átt að lesa Vefarann frá Kasmír þegar hann var ungur maður. Þar segir einhvers staðar að sigrar í styrjöldum séu dýrkeyptir. Sá sigur sem hæstv. utanrrh. lýsti hér yfir dögum eftir svokölluð lok styrjaldarinnar í Írak hefur reynst dýrkeyptur. Hann hefur reynst öllum sem að því máli koma ákaflega dýrkeyptur.

Hæstv. utanrrh. stendur frammi fyrir því að hann hafði skoðun sem hann lét uppi mörgum sinnum. Hann sagði að það ætti að bíða, það ætti að gefa vopnaeftirlitsmönnum meiri tíma til að leita af sér grun um hvort gereyðingarvopnin væru fyrir hendi í Írak. Tilvist þeirra var eina röksemdin sem hæstv. utanrrh. gaf upp á þeim tíma. (Utanrrh.: Þetta er rangt.) Og nú er það þannig að það finnst hvorki tangur né tetur af gereyðingarvopnum, ekki einu sinni arsenik, og herra forseti, þá kemur hæstv. utanrrh. og hver er röksemd hans núna? Hann hefur trú á því að gereyðingarvopn muni samt finnast og þar með sé hægt að réttlæta ákvörðun hans sem er versta ákvörðun sem hefur verið tekin í utanríkismálapólitík Íslendinga á síðustu áratugum.