Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 11:37:02 (1589)

2003-11-13 11:37:02# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég var ansi hissa að heyra ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan. Hæstv. utanrrh. var svo sem ekki mikill vandi á höndum að svara þeim sérkennilega málflutningi en ég vil samt sem áður blanda mér í það.

Átta menn sig á því hvað var að gerast í Írak? Komið hefur í ljós að um 300 þús. manns, við erum að tala um rúmlega íslensku þjóðina, féll fyrir hendi Saddams Husseins, hans eigið fólk. Það eru 200 fjöldagrafir (SJS: 1,5 milljónir í viðskiptabanninu.) nú þegar fundnar og hér koma menn upp og segja að við berum ákveðna ábyrgð á þeim hörmungum sem nú eru til staðar. Ég spyr þá aðila, virðulegi forseti, sem komu hér og studdu aðgerðirnar í Kosovo í nafni þjóðarmorðs. Ég spyr þá aðila vegna þess að ég var að koma frá þingi Sameinuðu þjóðanna þar sem einmitt í öryggisráðinu var verið að fara yfir stöðuna í því landi því það er nú þannig að öll mál leysast ekki þótt grimmum einræðisherrum sé komið frá. Þar er ástandið ekki gott, virðulegi forseti.

En hv. þm. Össur Skarphéðinsson ásamt Samf. studdi það þegar vestrænar þjóðir komu þeim einræðisherra frá og stöðvuðu þjóðarmorð þar nákvæmlega eins og menn gerðu nú. Sama ástand er í Kosovo alveg eins og er í Írak, þar er alvarlegt ástand. Ég spyr: Hver er munurinn? Hver eru sinnaskiptin hjá forustumönnum Samf. þegar annars vegar var um að ræða Kosovo og hins vegar Írak? Ef menn skoða ályktanir Sameinuðu þjóðanna, þá liggur það alveg fyrir að þær eru mun skýrari hvað varðar Írak en Kosovo. Það liggur alveg fyrir.