Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 12:19:36 (1592)

2003-11-13 12:19:36# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið í ljós í þessari umræðu að hún er mjög mikilvæg. Hér er komið inn á mörg mál og margar spurningar koma til mín sem ég mun leitast við að svara eftir því sem ég get. Hins vegar býður þetta form e.t.v. ekki upp á þau skoðanaskipti sem væru nauðsynleg því það er eðlilegt að utanrrh. sé spurður um ýmis atriði.

Mér heyrist sem hv. þm. sé í sjálfu sér sammála flestu af því sem er í ræðu minni fyrir utan þetta með Bjart í Sumarhúsum sem ég held að skipti ekki sköpum. Ég vonast til þess að við berum báðir mikla virðingu fyrir íslenskum sveitum, íslenskum bændum og sjálfstæði þeirra. Hitt er svo annað mál að auðvitað varð fjarlægð Íslands frá vígaslóð til þess að menn höfðu ekki jafnmiklar áhyggjur af heimsmálum og almennt gerðist og töldu ekki að Ísland ætti að hafa jafnmikil afskipti af þeim eins og víða gerðist í Evrópu. Það er svo annað mál. Hvort Bjartur er besta dæmið um það skal ég ekki gera að einhverju deilumáli hér.

Ég vildi aðeins segja um það sem hv. þm. sagði um að skýr heimild hefði ekki legið fyrir. Það var alveg ljóst af málflutningi mínum, ég teldi að það hefði verið mikilvægt að öryggisráðið hefði ályktað einu sinni enn. Hins vegar var öryggisráðið búið að álykta mjög oft um þetta mál og í lokin lá það fyrir, eins og staðan var í öryggisráðinu, að það voru ekki neinar forsendur til þess að vopnaeftirlitsmennirnir héldu áfram starfi sínu. Ég sagði hins vegar að það væri æskilegt að vopnaeftirlitsmenn gætu starfað áfram. Það breytti samt ekki þeirri skoðun minni að það bæri að koma Saddam Hussein frá. Það er mikilvægt að þetta sé haft rétt eftir.