Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 13:52:12 (1605)

2003-11-13 13:52:12# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Annaðhvort misskiljum við hæstv. ráðherra hvort annað allrækilega eða hann velur það viljandi að snúa út úr. Allflestir skilja ræðuna þannig að það eigi að auka þróunaraðstoðina til þess að komast nær þeim þjóðum sem skiptir gífurlegu máli að styðji umsókn okkar til að komast í öryggisráðið. Við í Samfylkingunni styðjum í raun ráðherrann og ríkisstjórnina í því að vera með í öryggisráðinu af því við viljum að Ísland sé með á þessum vettvangi og spili þar stórt hlutverk, eins og ég hef gert grein fyrir í ræðu minni. En við viljum ekki að þróunaraðstoðin hangi á því. Við viljum auka hana alveg óháð þessu. (Gripið fram í.) Ef þetta er svona þá erum við sammála. Loksins eftir sex ræður í morgun er það ljóst.

Í öðru lagi: Ég ætlast ekki til að ráðherra svari mér um það fólk sem sækist eftir hæli. Ég veit að ráðherrann þekkir flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna mjög vel. Það voru svo mikil átök um lögin um útlendinga loksins þegar frv. kom inn í þingið að það hvarflaði ekki annað að mér en að sú umræða hefði verið tekin í ríkisstjórn hver mörkin ættu að vera. Ég veit allt um það hvað stendur í samningnum og hvað stendur í lögunum. Útfærslu og einhver mörk sem ríkisstjórnin setur sér þarf til til að hægt sé að skoða málið, þ.e. hælisumsóknir. Ég vonaðist eftir að fá slíkt svar en skil nú að ég fæ það ekki.