Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:20:09 (1610)

2003-11-13 14:20:09# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst nokkuð sérkennilegt að hlusta á málflutning Samf. í þessu máli við umræðuna í dag. Ríkisstjórnin, þá ekki síst ég, hefur verið garnrýnd harðlega fyrir að eiga vinsamleg samskipti við Bandaríkin. Það hefur þótt hið versta mál að við skyldum sýna samstöðu með helstu bandalagsþjóðum Íslands í gegnum áratugina, Bretum og Bandaríkjunum. Menn hafa sagt að það gangi ekki að sýna samstöðu með þessum þjóðum. Svo kemur næsti þingmaður og gagnrýnir okkur harðlega fyrir að við skulum ekki ná betur saman við Bandaríkin í erfiðum og viðkvæmum málum.

Það rétt hjá hv. þm. að þessi mál eru mjög erfið og þau eru ekki í höfn. Við höfum reynt að eyða óvissu í þeim eftir því sem við höfum getað. En sú óvissa er því miður ekki að baki. Það er verið að vinna að þessu máli og við í utanrrn. höfum upplýst fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar á Suðurnesjum fullkomlega um þessi mál. Mér finnst óþarfi af hv. þm. að gera starf okkar tortryggilegt í þessum efnum, eins og mér hefur fundist hann gera við þessa umræðu.

Ég er tilbúinn til þess, hv. þm., að koma í sérstaka umræðu um þetta mál hvenær sem er. Mér er ekkert að vanbúnaði. Ég bað ekki um að hætta við utandagskrárumræðuna. Ég vissi vel að málinu var ekki lokið en einhverra hluta vegna vildi hv. þm. hætta við það. Ég skil ekki af hverju hann kemur upp með slíkum æsingi út af þessu máli þegar hann sjálfur hefur beðið um að fresta umræðu um það.