Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:38:53 (1615)

2003-11-13 14:38:53# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. um að framboðið til öryggisráðsins hefur þegar haft jákvæð áhrif á umræðu um utanríkismál á Íslandi og ég tel að framboðið í sjálfu sér hafi beint kastljósi í meira mæli að utanríkismálum. Það tel ég afskaplega jákvætt og nauðsynlegt. Ekki er þar með sagt að okkur takist þetta ætlunarverk, við gerum okkur alveg grein fyrir því. En það bar nú svo við að komið var að okkur í hópi Norðurlandanna í þessu sambandi. Við höfum alltaf kosið að sitja hjá að því er varðar framboð til öryggisráðsins. Nú var komið að okkur og það var mitt mat og ríkisstjórnarinnar að kominn væri tími til að við hættum að sitja hjá í því sambandi og einbeittum okkur að því að komast þarna að eins og önnur Norðurlönd höfðu gert í áratugi. Næst eru það Danir sem gangast undir kosningu 2005 vegna áranna 2006 og 2007, síðan eru það Íslendingar 2008 fyrir árin 2009--2010 og þar á eftir koma Finnar.

Hins vegar má vel vera að búið verði að breyta öryggisráðinu þegar þar að kemur og þess vegna getur þetta breyst. En eitt er þó alveg víst eins og mál liggja fyrir núna að við verðum að fara í kosningar vegna þess að fleiri ríki hafa óskað eftir setu í ráðinu en komast að af hálfu Vesturlandaþjóðanna. Og það getur vel verið að fleiri bætist þar í hópinn. En það er mat mitt að við höfum fulla burði til að gegna þessu viðfangsefni og ég hef þá trú hvaða ríkisstjórn sem situr 2009 og 2010 að þar verði fólk sem standi fyllilega undir því.