Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:54:42 (1620)

2003-11-13 14:54:42# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Það er margt undir þegar utanríkismálin eru rædd hér á Alþingi. Fyrst af öllu langar mig til að þakka hæstv. ráðherra fyrir þá ræðu sem hér var flutt og bjóða hann velkominn heim frá Afríku. Ég fagna þeirri umræðu sem farið hefur af stað hér í fjölmiðlum í kjölfar þeirrar ferðar. Ég held að það sé okkur afar hollt að fá að opna glugga til þessarar fjarlægu heimsálfu sem er svo stór og þar sem fjarlægðirnar eru svo miklar að við áttum okkur ekki á því, og bilið á milli ríkra og fátækra í þeirri álfu einni gífurlegt. Ég tel að ferð hæstv. utanrrh. til Afríku hafi auðgað umræðuna um málefni þeirrar álfu sem ég tel afar mikilvægt og ég vil hæla hæstv. utanrrh. sérstaklega fyrir það hvernig hann hefur fært þau málefni hingað inn á okkar borð.

Varðandi síðan einstaka þætti þeirrar umræðu sem hér fer fram langar mig kannski til að einbeita mér að tvennu, annars vegar vil ég skoða aðeins stöðu kvenna, og þá ekki hvað síst kvenna í stríði, og síðan langar mig til að fara örfáum orðum um Alþjóðaviðskiptastofnunina og þá samninga sem fóru út um þúfur í Cancún fyrir örfáum vikum.

Mín skoðun er sú að Ísland geti haft mikið fram að færa á vettvangi alþjóðamála, ekki síst í friðarmálum. Mér þykir hins vegar ekki nægja að við getum gefið yfirlýsingu jafnalmenna og þessa til þess að segja að það sé sjálfsagt að við sækjumst eftir sæti í öryggisráðinu. Mér finnst þeirri vegsemd fylgja gífurlega mikil ábyrgð og kannski fyrst og síðast sú að utanríkisstefna okkar sé sjálfstæð og gangi út frá þeim forsendum sem íslensk þjóð hefur búið við og búið til í menningu sinni og lífi í gegnum árin og aldirnar. Mér finnst mjög mikilvægt að Íslendingar skerpi stefnu sína og sýni það í orði og á borði að þeir séu ekki bara fylgjendur utanríkisstefnu Bandaríkjanna eins og mér finnst oft vilja brenna við og hefur auðvitað komið fram hér í þessari umræðu. Nærtækasta dæmið er stríðið í Írak þar sem íslensk stjórnvöld settu okkur á lista hinna staðföstu ríkja og voru algjörlega ófáanleg einu sinni til að ræða þann möguleika að fara út af þeim lista, algjörlega án samráðs við utanrmn. þingsins, án samráðs og umræðu hér á landi. Ég tel afar hættulegt að móta utanríkisstefnu á jafneinangraðan hátt og mér finnst íslensk stjórnvöld hafa gert upp á síðkastið. Þar hafa ákvarðanir verið teknar á fámennum fundum ráðherra, jafnvel bara tveggja manna fundum --- hvað vitum við? --- og íslenskri þjóð skipað í einhverjar raðir sem hún er alls ekki sátt við að fylla.

Mér finnst grundvallaratriði varðandi þessa umsókn okkar um að taka sæti í öryggisráðinu að við höfum sjálfstæða utanríkisstefnu, utanríkisstefnu sem gengur út frá íslenskum veruleika.

Mér finnst sjálfgert að við leggjum áherslu á friðarmálin í allri okkar utanríkisstefnu og í öllum okkar samskiptum við erlendar þjóðir, sérstaklega auðvitað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Staðan í ófriðarmálum veraldarinnar er hrikaleg, vægast sagt. Við erum að verða vitni að því nú á tímum að styrjaldir í heiminum eru að breytast. Þær eru allt öðruvísi í dag en þær voru fyrir 50 árum. Hvað er öðruvísi? Fyrst og fremst það að miklu fleiri óbreyttir borgarar, konur og börn, falla í valinn í þeim styrjöldum sem eru háðar í dag. Styrjaldirnar eru orðnar svo alvarlegar að þær ráðast beinlínis gegn stoðkerfi samfélagsins, gegn grundvelli samfélagsins, þar sem t.d. nauðgun er beitt markvisst sem vopni í stríði. Þessi atriði, virðulegi forseti, eru svo alvarleg að þjóðir hins vestræna heims eiga auðvitað að láta einskis ófreistað til að koma í veg fyrir þann ósóma og þá ómenningu sem viðgengst í styrjöldum veraldarinnar í dag. Og vestrænar þjóðir eiga auðvitað ekki að taka þátt í styrjöldum af þessu tagi.

Vestrænar þjóðir, og þá sérstaklega þjóð á borð við Ísland sem aldrei hefur haft her, eiga að leggja sín lóð á vogarskálar friðar, ekki ófriðar. Þær eiga að leggja sín lóð á vogarskálar þess að styrjaldir eins og þær eru reknar í dag verði upprættar, öllum ráðum verði beitt til að koma í veg fyrir þær. Því miður erum við ekki að gera það með þeirri framgöngu sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt í þessum efnum.

[15:00]

Þess er skemmst að minnast að hingað til lands kom í heimsókn Elisabeth Rehn, önnur af tveimur skýrsluhöfundum skýrslu Sameinuðu þjóðanna um konur, stríð og frið. Það var afar athyglisvert að hlýða á fyrirlestra Elisabethar og hún lagði sitt þunga lóð á vogarskálar friðar ásamt Ellen Johnson Sirleaf sem er meðhöfundur hennar að skýrslunni. Þessar konur hafa farið um heimsbyggðinna, heimsótt sérstaklega meira eða minna öll stríðshrjáð svæði og þær hafa miðlað af þeirri þekkingu og þeirri reynslu sem þær hafa öðlast.

Það er afskaplega dýrmætt að geta átt skoðanaskipti við konu á borð við Elisabeth Rehn og fá tækifæri til að kynna sér efni skýrslunnar. Það er auðvitað erfitt, en lífsnauðsynlegt fyrir okkur til þess að við getum myndað okkur stefnu í friðarmálum.

Í þeirra boðskap má segja að megininntakið, meginstefið, sé að fjölga þurfi konum í ákvarðanatöku hvað varðar alla þessa þætti og þá ekki hvað síst þá þætti sem lúta beinlínis að styrjöldum eða valdi eða valdboði eða valdbeitingu. Kannski þurfum við að hugleiða það, og þegar ég segi við núna þá á ég við vestræn ríki, að hefja til vegs umræðuna um þátt kvenna í t.d. friðargæslunni og jafnvel í herjum veraldarinnar. Kannski breytast þessir hlutir ekki fyrr en konur verða orðnar 50% af hermönnum. Ég er ekki að óska neinni konu frekar en nokkrum manni þess að þurfa að ganga undir vopnum eða fara í stríð gegn öðrum þjóðum. En það eru samt sem áður í grundvallaratriðum munur á sjónarmiðum karla og kvenna í þessum efnum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að Íslendingar beiti sér fyrir því að friðargæsluliðar sem færu á vegum Íslendinga til stríðshrjáðra svæða væru í meira mæli konur. Kannski ættum við að reyna að setja okkur það markmið að konur verði helmingur þeirra sem færu til friðargæslustarfa á vegum íslenskra stjórnvalda. Í því sambandi langar mig til að segja eitt varðandi friðargæsluliðana af því það hefur verið hér í umræðunni. Mér þykir mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld efli þátttöku sína innan starfs Sameinuðu þjóðanna og ég legg meira upp úr því að íslensk stjórnvöld sendi friðargæsluliða í liði Sameinuðu þjóðanna til stríðshrjáðra svæða heldur en að íslensk stjórnvöld séu að senda friðargæsluliða í nafni NATO inn á átakasvæði. Ég vil gera talsverðan greinarmun þar á. En hvort sem við sendum friðargæsluliða í nafni NATO eða Sameinuðu þjóðanna þá bið ég hæstv. utanrrh. að skoða þar hlut kvenna. Ótal rök eru talin fyrir því í skýrslu þeirra Ellenar Johnson Sirleaf og Elisabethar Rehn hvers vegna nauðsynleg sé að fjölga konum í því starfi á áktakasvæðum.

Af því það líður á tímann, frú forseti, og það er margt sem mann langar til að komast yfir en ekki hægt að fara yfir allt þá langar mig til að nefna lítillega deilurnar sem hæstv. utanrrh. kemur inn á varðandi veslun og viðskipti í heiminum. Hann gerir að umtalsefni í skýrslu sinni hvernig fundurinn í Cancún beið hálfgert skipbrot. Ég vil segja að þar er á ferðinni umræða sem er afar flókin og ekki er einfalt fyrir okkur Íslendinga að skilja þá hagsmuni sem þar eru í húfi. Þó er eitt sem ég held að allir séu búnir að átta sig á sem reynt hafa að fylgjast með þeirri umræðu. Hún er ekki einföld og hún byggir ekki bara á því að felldir séu niður tollamúrar til þess að viðskipti milli þjóða geti átt greiða leið frá einu landi til annars.

Þessi umræða gengur líka út á vald stórfyrirtækja veraldarinnar og möguleika þeirra á að stýra viðskiptum og jafnvel nánast eignast rétt til viðskipta við fjölmennar þjóðir. Nægir þar að nefna Indland og Kína sem nú þegar hafa orðið illa út úr viðskiptum sínum við vestræn stórfyrirtæki. Það er auðvitað svo margt sem þarf að gá að t.d. varðandi matvælaframleiðsluna sem hæstv. ráðherra er búinn að koma hér inn á, framleiðslu landbúnaðarafurða. Það tíðkast orðið í veröldinni að vestræn stórfyrirtæki, oftar en ekki bandarísk, kaupa sig inn á markaði á afskaplega hæpnum forsendum. Það hafa nú verið skrifaðar um það merkar bækur hvernig brögðum stórfyrirtækin beita. Mig langar til að nefna eina bók sem er merkileg og fjallar um þessa hluti. Hún heitir Alternatives to Economic Globalization eða Hugmyndir um aðra efnahagsskipan í veröldinni, þ.e. annars konar efnahagsskipan. Það er nefnilega þannig að hægt er að hugsa sér að veröldin verði færð til betri vegar í gegnum m.a. breytta viðskiptahætti. En það er ekki þar með sagt að þeir viðskiptahættir sem Alþjóðaviðskiptastofnunin talar fyrir séu hinir einu réttu.

Mér finnst afskaplega mikilvægt að við horfum á það inntak sem ég tel að þurfi að vera til staðar ef breyttir viðskiptahættir eiga að skila þjóðum veraldarinnar í alvöru bættu lífi fyrir þjóðirnar. Þá er ég að tala um jöfn kjör, jöfnun kjara, bætt lífskjör fyrir þá sem eru verst settir og þær þjóðir sem eru verst settar. Ég tel nauðsynlegt að við á Vesturlöndum finnum raunhæfar leiðir til þess að valdið sé aftur fært til fólksins, til þjóðanna, og verði þá tekið úr höndum einræðisherra og að stutt verði við bakið á lýðræðislegri skipan eða aðstoð við þjóðir að koma á lýðræðislegri skipan. En ég mun aldrei skrifa undir það að hægt sé að gera það með hervaldi. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ansi mikið skorta hjá mörgum þjóðum veraldarinnar að þær hafi þann menningarlega bakgrunn sem þarf til þess að hægt sé að innleiða lýðræðislega stjórnarhætti Vesturlanda án þess að farið sé öðruvísi að en vestrænir stjórnarherrar hafa verið að reyna hingað til.

Það skiptir verulegu máli að við tryggjum mannréttindi og að mannréttindamálin verði sett í forgrunn í allri þessari vinnu. Þau skipta líka máli í viðskiptalegu tilliti, þegar við erum að skoða viðskipti þjóða í milli. Síðast en ekki síst vil ég nefna umhverfismálin sem eru stór þáttur í þessu og tengjast umræðunni um sjálfbæra þróun.

Varðandi alla matvælaframleiðslu og frjáls viðskipti tengd henni þá hafa frjáls félagasamtök verið að reyna að koma hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þarna að. Sú hugmyndafræði byggir á því að þjóðir, byggðarlög, landsvæði hafi það nokkuð tryggt að matvælaframleiðslan sé þeirra sem þar búa, þ.e. við megum ekki láta hin erlendu stórfyrirtæki verða svo dugleg við að flytja inn matvæli til fátækari þjóða að möguleikum þjóðanna á því að framleiða sjálfar verði kippt undan þeim. En það hefur viljað brenna við að stórfyrirtæki komi til fátækra landa og kippi beinlínis fótunum undan framleiðslu þjóðanna sjálfra.

Þannig er hægt að nefna sókn bandarískra stórfyrirtækja inn í kornframleiðslu í Indlandi þar sem hefur verið sett á markaðinn vara, t.d. kornvara sem er þeirrar náttúru að hún er erfðabreytt og ber ekki frjótt korn. Það þýðir að bændur í Indlandi, fátækir bændur, geta ekki tekið hluta uppskerunnar frá og notað sem útsæði í næstu uppskeru. Þeir þurfa aftur að koma til stórfyrirtækisins og kaupa meira erfðabreytt korn. Þetta eru lúaleg brögð stórfyrirtækja sem er verið að beita víða um heim. Íslensk stjórnvöld eiga að vera vakandi á verðinum gagnvart svona hlutum. Þau eiga að tala gegn þessum aðferðum stórfyrirtækjanna á fundum eins og í Cancún, á öllum þeim fundum sem fjallað er um alþjóðleg viðskipti og íslensk stjórnvöld eiga í alvöru að reisa merki sjálfbærrar þróunar, hafandi sett slík merki inn í sínar eigin stefnuskrár. Og íslensk stjórnvöld eiga að geta verið málsvarar hennar á alþjóðavettvangi til að tryggja að matvælaframleiðslan í veröldinni lúti þeim lögmálum og auki þar með möguleika fátækra þjóða á að framleiða matvæli og þá sömuleiðis að selja þau.