Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:09:58 (1621)

2003-11-13 15:09:58# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi aðeins bregðast við því sem hv. þm. sagði um konur og friðargæslu. Ég tek undir það. Í fyrsta skipti sem ég kom til Bosníu og heimsótti friðargæsluliða þar þá heimsótti ég m.a. breska herdeild þar sem fjórar íslenskar konur voru við störf, tveir íslenskir læknar og tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar. Það kom Bretunum mjög á óvart hvað þetta samstarf gekk vel. Hermennirnir voru undir heraga en þessar íslensku konur stóðu sig frábærlega vel. Það er alveg ljóst að mikil þörf er fyrir það að konur komi til þessara starfa, t.d. lögreglustarfa. Það er mikill áhugi fyrir því að fá íslenskar konur, lögreglumenn, til starfa bæði Kosovo og í Bosníu vegna þess að lögreglumenn lenda oft í margvíslegum málum sem snerta konur. Þar má nefna glæpastarfsemi, nauðganir og fleira sem tengist glæpamönnum sem konur geta betur átt við en karlar. Þetta liggur fyrir og það er okkar stefna að fá sem mest af konum til þessara starfa eftir því sem það á við. Sem betur fer hafa mjög margar konur komið til starfa á vegum íslensku friðargæslunnar. Ég vona að svo verði áfram.

Að því er varðar WTO þá eru að sjálfsögðu tvær hliðar á því máli, þ.e. að því er varðar fyrirtækin. Eitt er víst að í Afríku skortir það að erlend fyrirtæki komi þar inn og fjárfesti. Það vantar fjárfestingu. Það vantar atvinnusköpun. En auðvitað er mikilvægt að þessi fyrirtæki taki fullt tillit til aðstæðna í þjóðfélaginu. Eins og ég sé hlutina í Afríku --- ég þekki það ekki nægilega vel í Asíu --- þá stórvantar þar fjárfestingu erlendra fyrirtækja.