Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:14:39 (1623)

2003-11-13 15:14:39# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Full ástæða hefði verið til að gera hafréttarmálum hér sérstök skil. Að því er varðar Jan Mayen-svæðið þá var því nú lokið með samningi á sínum tíma, hvort það var rétt í kringum 1980. Að því er varðar Svalbarða þá höfum við aldrei viðurkennt eignarrétt Norðmanna á því svæði frekar en aðrar þjóðir.

En að því er varðar hafsvæðið í kringum Ísland almennt þá fara núna fram mjög umfangsmiklar rannsóknir á hafsvæðinu, m.a. á Rockall-svæðinu og líka á svæðinu austur af Íslandi. Þessar rannsóknir kosta mörg hundruð millj. kr. Mig minnir það vera einhvers staðar á bilinu 600--800 millj. Þær fara fram til þess að undirbúa kröfugerð okkar á hafsbotninum og auðlindum þar, en munu jafnframt gagnast okkur mikið í sambandi við Rockall-málið. Það sem hefur áunnist í því er að Bretar hafa fallist á að ræða það mál við okkur. Það var ákveðið á fundi sem ég átti á sínum tíma með utanríkisráðherra Bretlands, Robin Cook, og þá komst nokkur skriður á málið.

Við erum sem sagt fyrst og fremst að undirbúa þetta mál með rannsóknum. Fyrir því hefur verið gerð grein í utanrmn. Þessar rannsóknir áttu sér m.a. stað í sumar og síðan aftur næsta sumar og eitt af hafrannsóknaskipunum var upptekið við það á tímabili. Ég tel því að verið sé að vinna ágætlega að þeim málum hvernig sem svo það endar nú.