Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:35:59 (1627)

2003-11-13 15:35:59# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki þessar tölur með mér en ég mun að sjálfsögðu afla þeirra og koma þeim til hv. þm. Það liggja að sjálfsögðu fyrir upplýsingar um hvernig þetta skiptist. En ég vil samt geta þess að það hefur stundum reynst erfiðara að fá konur en karla til ákveðinna starfa í friðargæslunni, þá kannski sérstaklega lögreglustarfa. Það er m.a. vegna þess að það eru mun færri konur í íslensku lögreglunni en karlar. Ég er alveg viss um að ef fleiri konur væru í íslensku lögreglunni þá hefðu fleiri konur farið til löggæslustarfa hjá íslensku friðargæslunni.

Við verðum því líka að líta inn á við en ekki bara út á við. Þetta ræðst af þeim aðstæðum sem hér eru. Það er mikil þörf fyrir stéttir eins og verkfræðinga og lækna. Eins er mikil þörf fyrir hjúkrunarfræðinga, þar vitum við að er ekki skortur á konum á Íslandi. Hins vegar hafa verið miklu færri konur í stétt verkfræðinga en karlar. Þetta ræðst töluvert af þeim aðstæðum sem við sjálf búum við. Okkur gefst þannig tækifæri til að líta líka inn á við í þessu samhengi.