Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:43:44 (1632)

2003-11-13 15:43:44# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ræða hæstv. utanrrh. um utanríkismál markar viss tímamót í umræðu og stefnu í utanríkismálum, finnst mér, og kem ég að því aðeins nánar í ræðu minni. Meginhluti ræðu hæstv. ráðherra fjallar um umsókn Íslands í öryggisráðið og í rauninni um þá auknu ábyrgð sem Ísland mun þá verða að axla, ef af verður, og einnig í aðdraganda þeirrar umsóknar.

Hæstv. utanrrh. fjallaði meira um framtíðina og hvernig hann sæi utanríkisstefnuna þróast og vildi gjarnan gleyma einhverju af því sem að baki væri eða það lá í orðunum. Ég get verið sammála hæstv. utanrrh. í þeim efnum.

Ég átti því láni að fagna að fá tækifæri til að heimsækja Sameinuðu þjóðirnar fyrir rúmri viku og dvelja þar um tíma og kynnast störfum þeirra og einnig störfum sendiherra okkar og sendinefndar hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta var afar lærdómsríkt og opnaði augu og víddir fyrir verkefnum sem þar eru unnin.

Ég vil taka fram að sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum leggur fram gríðarlega mikið starf og leggur sig mjög fram í störfum sínum. Þrátt fyrir tiltölulega fámennan hóp er lögð áhersla á að taka þátt í sem allra flestum verkefnum og vera sem allra víðast í umræðum innan Sameinuðu þjóðanna og var aðdáunarvert hvernig þeim tókst að fylgja þar eftir hlut Íslands í þeirri umræðu. Þetta vil ég að komi strax fram og við getum í sjálfu sér verið stolt af verkum þessa ágæta fólks sem er á þeim vettvangi.

Eitt af þeim umræðuefnum sem komu á dagskrá á allsherjarþinginu var samskipti þjóða sem m.a. laut að endurheimt menningarverðmæta sem hefðu verið fjarlægð með einum eða öðrum hætti úr heimalandi sínu. Við þekkjum þá umræðu á Íslandi að menningarverðmæti okkar, handrit og jafnvel fleiri verðmæti voru flutt úr landi til Danmerkur á sínum tíma. Að vísu vorum við þá hluti af Danaveldi þegar þetta fór fram en engu að síður sóttum við bæði sjálfstæðisbaráttu okkar og rök fyrir sjálfstæðinu í þau menningarverðmæti, í söguna okkar og í menningarverðmætin sóttum við rökin fyrir sjálfstæðisbaráttunni. Við fórum ekki með vopnum, sóttum ekki sjálfstæði okkar með vopnum eða samsærum heldur með rökum og á grunni eigin forsendna.

Í ágætri ræðu sem sendiherra okkar, Hjálmar Hannesson, flutti einmitt um þetta mál á allsherjarþinginu rakti hann sjálfstæðisbaráttuna, hvernig við hefðum stuðst við menningarverðmætin og hvernig við hefðum síðan sótt menningarverðmætin áfram með samningum við Dani og fengið þau heim, eins og handritin. Þetta erindi sendiherra okkar vakti gríðarlega mikla athygli því að ræður annarra, Egypta, Indverja, Grikkja og annarra landa voru afar bitrar yfir því hvernig heimsvaldaþjóðir, Bretar, Bandaríkjamenn, Þjóðverjar --- sem voru nú sérstaklega nefndir til --- höfðu að þeirra mati rænt og ruplað menningarverðmætum úr landinu, verðmætum sem voru eiginlega hornsteinar þeirra sem þjóða. Þeir fóru fram á það að sett yrðu alþjóðleg lög sem skikkuðu þessar þjóðir til að skila slíkum menningarverðmætum til baka.

En sendiherra okkar rakti þau samskipti og hvernig við hefðum unnið hér bæði til þess að ná sjálfstæðinu og menningarverðmætum til baka og hvatti til þess að sú leið sem við hefðum farið yrði höfð að leiðarljósi í samskiptum þjóða með gagnkvæmri virðingu fyrir þessum þáttum. Sú ræða og undirtektir sem hún fékk á allsherjarþinginu staðfesti í rauninni þá skoðun sem ég hafði svo sem fyrir, að litlar þjóðir með öflugan menningarlegan bakgrunn og reynslu ættu erindi inn á vettvang hinna Sameinuðu þjóða, bæði til að taka þátt í að leysa flókin viðfangsefni og geta þar átt þátt í forgöngu um að vinna að friði og bættum samskiptum þjóðanna.

Ég vil nefna þetta hér, virðulegi forseti, í upphafi vegna þess að þetta innlegg snart náttúrlega Íslendinginn í manni og það snart líka þær hugsjónir sem við berum um að með samningum og virðingu sé hægt að sækja það sem okkur finnst sjálfsagður réttur en ekki með vopnum og yfirgangi.

Umræðan um hugsanlega inngöngu okkar eða umsókn í öryggisráðið var í sjálfu sér mikið rædd bæði við íslensku sendinefndina og eins við þá erlendu fulltrúa sem þar voru og maður komst í tæri við til þess að skiptast á skoðunum. Það er alveg rétt að láta þess getið að maður fann að Ísland naut almennt virðingar innan Sameinuðu þjóðanna og staða þess hvað það varðar er býsna sterk og var ánægjulegt að upplifa það. Hins vegar var engin launung á því í umræðu víðast hvar að Íslendingar yrðu að átta sig á að með þátttöku í öryggisráðinu eða með aukinni þátttöku á alþjóðavettvangi á eigin forsendum þýddi það að Íslendingar yrðu líka að gæta sín í því hvar þeir skipuðu sér í sveit og fylgja þar einmitt pólitískri sannfæringu sem verður að liggja að baki umsókn í öryggisráðið.

Það er í sjálfu sér ánægjulegt að sjá og heyra í ræðu hæstv. utanrrh. þar sem hann leggur einmitt áherslu á þau atriði. Með leyfi forseta, vitna ég í ræðu hæstv. ráðherra, þar sem segir:

,,Í kynningu á framboði Íslands og síðar í störfum innan öryggisráðsins verður stuðst við eftirfarandi megináherslur:

Framlag til friðar og stöðugleika í heiminum. Ísland leggur áherslu á að það verði gert með ófrávíkjanlegri virðingu fyrir grundvallarmannréttindum, eflingu lýðræðis, baráttu gegn fátækt, virðingu fyrir grundvallarreglum þjóðaréttar og þar með viðurlögum við þjóðarmorði og grófum mannréttindabrotum.``

Ég held að við getum öll tekið undir þessar yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að hæstv. ráðherra og íslenska ríkisstjórnin eigi að fara eftir þeim. Það var kannski það sem hæstv. ráðherra átti við þegar hann sagði í ræðu sinni að hér væri verið að leggja fram stefnumið til framtíðar en ekki verið að horfa svo mikið á fortíðina, því að alveg grímulaust held ég að verði að segja að þátttaka Íslands í innrásinni í Írak var meiri háttar glappaskot og alvarlegur blettur á stefnu Íslands og þátttöku í utanríkismálum. Það mun standa eftir sem svo. Ég held að eitt veigamesta málið fyrir íslenska utanríkisþjónustu nú til að taka á sé hvernig megi rétta þann kúrs og færa hann til baka. Innrásin í Írak braut flestar þær reglur og flest þau markmið sem hæstv. utanrrh. getur um hér í ræðu sinni, braut grundvallarmannréttindi og gekk gegn virðingu fyrir grundvallarreglum þjóðaréttar.

Ég verð að vona, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. sjái það og geri sér grein fyrir því hversu gríðarlegt og alvarlegt glappaskot það var að taka þátt í innrásinni í Írak með þeim hörmungum sem það hefur haft og mun leiða af sér og ekki verður séð fyrir endann á, og fylgi heldur eftir þeim markmiðum sem hæstv. ráðherra setur fram í ræðu sinni.

Það var að sjálfsögðu rætt mikið um jafnréttismál á allsherjarþinginu og einmitt sú umræða stóð yfir þegar við vorum þar. Mér þótti athyglisvert að heyra að Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér mjög ákveðnar samþykktir um að auka jafnrétti innan Sameinuðu þjóðanna. Meðal fulltrúa og fólks í ábyrgðarstöðum o.s.frv. er í gildi jafnréttisáætlun sem meira að segja var gert ráð fyrir að yrði fylgt. En staðreyndin er sú að af 14 eða 15 sérstökum sendifulltrúum eða fulltrúm framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna var aðeins ein kona, hitt voru allt karlar. Á þetta var bent mjög rækilega að Sameinuðu þjóðirnar gerðu lítið í því sjálfar að fylgja eftir þeim samþykktum sem þær hefðu þó gert, og þannig var það í fleiri efnum. Það vill nú oft svo vera að langt er á milli orða og gjörða.

Ég tek líka undir það, virðulegi forseti, sem stendur í ræðu hæstv. utanrrh. varðandi þátttöku þingmanna í störfum allsherjarþingsins að það verði eflt. Ég tel að rýmka eigi þá möguleika sem þingmenn hafa til þess að sækja heim Sameinuðu þjóðirnar og fylgjast með störfum þeirra þannig að sem flestir þingflokkar eigi þar möguleika á að senda þangað fulltrúa reglulega. Sú umsókn sem verið er að leggja inn til öryggisráðsins um þátttöku kemur ekki til framkvæmda fyrr en --- það verða vonandi orðin rækileg stjórnarskipti þá og þeir sem nú fara með stjórn verða vonandi allir horfnir frá stjórnvölnum og þá verða komnir nýir inn og gott að allir fylgist með og þar með þeir flokkar sem eiga sæti á Alþingi. Ég tel því að styrkja eigi aðkomu þingflokkanna á Alþingi að störfum Sameinuðu þjóðanna.

Eitt í lokin, virðulegi forseti. Umsókn að öryggisráðinu er það mikið stórmál að það ætti að vera skilyrðislaus krafa að hæstv. utanrrh. legði fram ítarlega kostnaðaráætlun, bæði hvað varðar kostnað við aðildarumsóknina og einnig hver yrði hugsanlegur fjárhagslegur kostnaður við störf í öryggisráðinu, ef af verður.

Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst og fremst gera hér að umtalsefni aðild okkar að öryggisráðinu og hversu þá er brýnt að við hverfum frá braut þess að styðja við hernað og yfirgang í heiminum og snúa að braut friðar og sátta meðal þjóða.