Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:01:04 (1634)

2003-11-13 16:01:04# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þeim fjármunum sem varið er til þess að kosta þingmenn til þessara ferða sé ágætlega varið. Hins vegar verð ég að leggja áherslu á að þessi vinna öll, aðildarumsókn okkar að öryggisráðinu og kostnaður við þátttöku í því, verði slík að við fáum þar sæti. Við eigum að gera um þetta bæði kostnaðar- og aðgerðaáætlun. Það má líta á þetta sem nokkurs konar fjárfestingu Íslendinga í utanríkismálum til lengri tíma. Alla vega mundi ég líta svo á að þarna væri um langtímafjárfestingu að ræða. Það er ekki markmið að eiga sæti í öryggisráðinu í tvö ár og síðan er allt dottið aftur til baka í sama farveginn heldur er þetta liður í að við ætlum að fylgja eftir störfum á alþjóðavettvangi sem ég tel að Ísland eigi fullt erindi í ef fylgt er þeirri stefnu að vera boðberi friðar og sátta meðal þjóða. Þá eigum við erindi og þess vegna benti ég á, virðulegi forseti, að erfitt er að afmá svarta bletti eins og stuðning við innrásina í Írak. En reyna má að bæta úr og gæta sín á því að falla ekki aftur í slíkar svartar gryfjur.

Ég legg áherslu á að umsókn um sæti í öryggisráðinu sé vandlega undirbúin og þess gætt að allir þingflokkar, allir flokkar á þingi, fái tækifæri til þess að vinna saman að þeim undirbúningi.