Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:30:15 (1643)

2003-11-13 16:30:15# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. reynir að snúa málum á hvolf. Annars vegar er verið að ræða um það hvort forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, oddvitar hennar, hefðu átt að koma skilaboðum í hendur formanna stjórnmálaflokkanna, hugsanlega utanrmn., nokkrum dögum fyrir mjög afdrifaríkar kosningar. Hins vegar erum við að ræða það sem gerðist á sumardögum þegar bréf fóru að ganga á milli aðila. Þrátt fyrir loforð og vilyrði áhrifamanna á borð við Powell og Robertson var samt sem áður nauðsyn til þess að menn skrifuðust á og þyrftu að senda eitt lettersbréf í Hvíta húsið, reyna að koma því þannig fyrir að viðskipti væru milli Hvíta hússins og forsrn., ekki við varnarmálaráðuneytið, ekki við þjóðaröryggisráðið o.s.frv. Á þeim punkti þótti okkur það algerlega eins og opin bók að menn ræddu á breiðum grundvelli hvernig íslensk þjóð vildi haga áframhaldandi vörnum ef svo færi að allt gengi á afturfótunum og hér yrðu verulegar breytingar á. Gleymum því ekki, frú forseti. Það er ekki eins og ekkert hafi breyst frá þessum tíma. Þeir eru að fara einn af öðrum og þess vegna segi ég: Er það skoðun hv. þingmanns að öryggisumræðan íslenska eigi að vera öll á trúnaðarstiginu? Það sem ég sagði eingöngu var að á hinum viðburðaríku dögum í aðdraganda kosninga hefði verið vel verjanlegt að ræða þessi mál á trúnaðarstiginu milli stjórnmálaflokkanna og gera þeim grein fyrir málinu.

Það sem síðar gerðist er ekkert leyndarmál og þau mál verðum við að ræða fyrir opnum tjöldum hvort sem hv. þingmanni líkar það betur eða verr. Hvort sú umræða er honum erfið og hans flokki er vandamál hans og hans flokks.