Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:32:08 (1644)

2003-11-13 16:32:08# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór ekki fram hjá neinum að hv. þm. var í nauðvörn í þessu máli, enda eru nákvæmlega engin rök fyrir því að aflétta leyndinni á þessum viðkvæma tíma. Við höfum nógan tíma til þess að ræða öryggis- og varnarmál Íslands hvenær sem er en á þessum tímapunkti, nákvæmlega á þessum tímapunkti, skipti máli að hér væru ábyrgir aðilar við stjórnvölinn hjá íslensku þjóðinni. Það var skelfilegt að sjá þennan stjórnmálaflokk sem telur sig, eins og alla jafna, vera ábyrgan koma fram með það eitt á þessum viðkvæma tímapunkti að aflétta leynd og reyna að gera þetta mál að einhverju allt öðru en máli sem snýr að hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það er ástæða fyrir því að menn hafa leynd, ekki bara í utanrmn. Íslendinga heldur almennt. Það er vegna þess að menn eru í ákveðnum málum á viðkvæmum tíma að gæta hagsmuna þjóðar sinnar. Útspil hv. þingmanns var einfaldlega það að henda hagsmunum þjóðarinnar og fara í pólitískan hráskinnaleik.