Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:39:48 (1650)

2003-11-13 16:39:48# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. fór hér áðan með prýðilega ræðu um utanríkismál eins og við öll vitum. Mér fannst vel við hæfi að þar væri fyrst og fremst og að stærstum hluta farið yfir framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta er auðvitað mjög merkilegur viðburður sem sjálfsagt er að ræða og ég held að hafi afskaplega góð áhrif, þótt ekki væri á annað en pólitíska utanríkismálaumræðu hér innan lands. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt kemur upp því að í tíð Geirs Hallgrímssonar utanrrh. á árunum 1983--1985 var hreyft við þessu máli en það er hins vegar í fyrsta skipti núna sem við lýsum yfir framboði í öryggisráðið.

Eins og sumir aðrir sem hér hafa tekið til máls er ég nýkominn frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það var ákaflega lærdómsríkt að vera þar. Það verður að segjast eins og er að margt þar kom mjög á óvart. Líka var mjög fróðlegt að kynnast starfi sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og það er augljóst að þar er öflugt fólk sem vinnur gott starf. Mig langaði líka að kynnast störfum eins heldri manns sem starfar fyrst og fremst fyrir Ísland ánægjunnar vegna en vinnur þar afskaplega gott starf og er með fastanefndinni í mikilvægum störfum. Hann heitir Thor Thors og vinnur eins og ég segi fyrst og fremst fyrir hönd þjóðar sinnar vegna þess að hann vill veg hennar sem mestan. Það er gríðarlegur styrkur fyrir okkur að hafa bæði sendinefndina sem og einstaklinga eins og hann sem er að vinna þarna á okkar vegum.

Einnig þótti mér athyglisvert að kynnast starfi Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum og sömuleiðs fórum við í heimsókn í íslensk fyrirtæki sem nýttist okkur vel. Ástæðan fyrir að ég nefni þetta, virðulegi forseti, er einfaldlega sú að ég hef það oft á tilfinningunni að við gleymum nokkuð samskiptunum við Bandaríkin, þessa fornu vinaþjóð okkar.

Oscar Wilde sagði einhvern tíma að Íslendingar væru afskaplega vel gefið fólk, það vel gefið að við hefðum verið þau fyrstu sem fundum Ameríku og það skynsöm að vera fljót að týna henni aftur. Það var sagt við ákveðnar aðstæður en mér hefur fundist nokkuð vanta á í umræðuna um utanríkismál hér að menn ræddu fleira en þessi hefðbundnu Evrópumál. Evrópuumræðan hefur verið afskaplega fyrirferðarmikil og þótt hún sé mikilvæg verðum við að horfa í fleiri áttir. Ég lít svo á að þegar við bjóðum okkur fram og gerum okkur meira gildandi á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða séum við að líta til fleiri átta.

Það hefur komið nokkuð á óvart þegar maður hlustar á þessa umræðu hér að menn telja, sérstaklega fulltrúar Samf. og Vinstri grænna, að það sé eitthvert sérstakt markmið í sjálfu sér að vera andsnúnir Bandaríkjamönnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem annars staðar. Mér þykir það svolítið sérkennilegt upplegg í utanríkispólitík og það er eiginlega ekki uppleggið sem menn ættu að hafa ef þeir meina það að þeir vilji vera sjálfstæðir í utanríkispólitík sinni. Ég tel að við ættum að styrkja tengslin við þessa vinaþjóð okkar sem mest við getum. Þetta er, eins og utanrrh. nefndi hér, fyrsta þjóðin sem viðurkenndi sjálfstæði okkar, hvorki meira né minna. Og það munar um minna, að eiga sterka þjóð sem hefur stutt við bakið á okkur á viðkvæmum tíma eins og Bandaríkin gerðu. Þarna er stór markaður sem er skammt undan og þegar við setjum áhersluna á ferðamál eru þetta t.d. nákvæmlega ferðamennirnr sem henta okkur. Þeir staldra hér við kannski ekki mjög lengi, hafa mikinn áhuga á náttúru og öðru slíku og ekki skemmir að þeir eru ósparir á fjármuni þegar þeir eru í fríum.

Það er náttúrlega mikið samstarf, eins og við höfum rætt, við Bandaríkjamenn í öryggis- og varnarmálum. Öðru gleyma menn kannski og það er að rækta tengslin við Vestur-Íslendinga. Að vísu hefur það sem betur fer á síðustu missirum farið vaxandi og svo sem í gegnum tíðina. Menn líta oft svo á að Vestur-Íslendingar séu fyrst og fremst í Kanada og svo sannarlega eru þeir þar en það eru mun fleiri Vestur-Íslendingar í Bandaríkjunum. Einar Benediktsson sendiherra, sem var áður sendiherra í Washington, hóf það starf að skrásetja Vestur-Íslendinga og ég veit ekki hvar það verkefni stendur enda er það eilífðarverkefni. Þetta er eitthvað sem við eigum að rækta og mun nýtast okkur á margvíslegan hátt.

[16:45]

Menn hafa kvartað undan því hér sem ég að vísu átta mig ekki alveg á því svo sannarlega finnst mér við taka Evrópumálin nógu oft upp, en mér finnst menn hafa kvartað undan því að þeim séu ekki gerð skil í þessari skýrslu sem eðli málsins samkvæmt, að mínu áliti, fjallar um framboð okkar til öryggisráðsins. En staðreyndin í því máli er auðvitað sú að þar erum við í góðum málum svo maður bara einfaldi það mál. EES-samningurinn hefur gengið vel og það er ekkert sem bendir til annars. Og ég vil vekja athygli á því að hér í þingsalnum og í þjóðmálaumræðunni hafa verið aðilar sem oft og tíðum hafa sagt okkur að við værum að missa af lestinni. Eftir að við gengum í EES var talað um að við mundum missa af einhverri lest ef við gengjum ekki í ESB. Og sömuleiðis þegar þær tíu þjóðir sem nú eru að ganga þar inn voru margir sem töldu alveg lykilatriði að við værum í þeirra hópi, við værum að missa af einhverri lest.

Ég held að enginn tali þannig nú í fullri alvöru. Við misstum ekki af neinni lest. Ef við skoðum stöðuna í Evrópumálunum nákvæmlega eins og hún er núna þá horfum við á það að Evrópusambandið er að fara í gríðarlega stækkun, hvorki meira né minna en tíu þjóðir eru að ganga þar inn. Og menn þekkja það að nú þegar eru ákveðin vandræði í gangi hjá Evrópusambandinu, m.a. hjá innri markaðnum. Menn þekkja það að þjónustuviðskipti hafa minnkað þar og eru minni nú en þau voru fyrir tíu árum, viðskipti við þriðja aðila hafa aukist meira en gengur og gerist innan markaðarins og nú tekur helmingi lengri tíma en fyrir nokkrum árum að koma reglum markaðarins í gegn hjá þjóðlöndunum. Við horfum á það að menn eru að takast á um stjórnarskrá Evrópusambandsins og ég held að það sé mjög skynsamlegt hjá okkur að fylgjast mjög vel með því máli og sjá hvað felst í henni því að það skiptir máli.

Sama er með evruna. Við erum að horfa á það að stórveldin í sambandinu, ekki smáu ríkin, Frakkland og Þýskaland eiga erfitt með að standa við þá samninga sem evruaðildin er byggð á. Það er því ekki nokkur einasta leið önnur en að komast að þeirri niðurstöðu, ef menn skoða það, að þar er ekkert sem liggur á af hálfu okkar Íslendinga.

Hér hafa verið rædd málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á þeim forsendum, eins og kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh., að það séu mestu einstöku hagsmunir þróunarlandanna að fá aðgang að mörkuðum hinna ríku þjóða og hjá þeim séu frjáls viðskipti sem mest milli þjóða. Mér þótti þess vegna nokkuð athyglisvert þegar hv. þm. Samfylkingarinnar, Ásgeir Friðgeirsson, kom hér upp og sagði að við ættum að fara að fordæmi Evrópusambandsins, ef ég skildi hann rétt, þegar kemur að þeim málum.

Það er skemmst frá því að segja að Alþjóðaviðskiptastofnunin og fyrirrennari hennar, GATT-samningarnir, hafa verið til staðar í nokkra áratugi og það gekk á ýmsu þegar þeir samningar voru keyrðir í gegn. Og aldrei hefur Evrópusambandið eða fyrirrennari þess haft frumkvæði að slíkum samningum. Almenna reglan er sú að í málum bæði sem viðkemur verslun við þróunarlönd sem og flestum öðrum viðskiptamálum hefur Evrópusambandið verið á bremsunni. Og af því að hér hefur verið rætt að við stöndum betur en margar þjóðir af því að við erum ekki með útflutningsbætur á okkar landbúnaðarafurðum, sem komi þróunarríkjunum gríðarlega illa, þá það er alveg hárrétt. En þar hefur Evrópusambandið verið í fararbroddi ef þannig má að orði komast og í rauninni hefur stefna þeirra hvað það varðar verið notuð sem skjól fyrir aðrar þjóðir þegar þær hafa farið út í slíkt.

Menn geta því örugglega og sjálfsagt fundið einhver rök fyrir því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið en menn skyldu tæplega nota það að það væri eitthvað sérstaklega gott fyrir þróunarríkin að þar væri við lýði sem og annars staðar hjá öðrum vestrænum ríkjum sem ekki eru í Evrópusambandinu, stefna sambandsins í viðskiptamálum því það liggur alveg fyrir að hún hefur ekki verið hagstæð þróunarríkjunum. Það er alveg kristaltært.

En varðandi framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þá er ég afskaplega sáttur við þá stefnupunkta og það sem við byggjum stefnu okkar á í því framboði, þær megináherslur. Og eitt af því sem ég er mjög ánægður að sjá í ræðu hæstv. utanrrh. vil ég lesa hér upp, með leyfi forseta, annað meginatriðið:

,,Stuðla að umbótum með tillögugerð og þátttöku í starfi öryggisráðsins í því skyni að auka skilvirkni.``

Því ég held að það sé kannski það fyrsta sem allir sem koma að starfi og ná að fylgjast með starfi Sameinuðu þjóðanna, taki eftir og kynnist þegar þeir ræða við fólk þar, að eitt af því sem væri afskaplega skynsamlegt og í rauninni nauðsynlegt að gera sé að auka skilvirkni á þeim vettvangi. Það væri auðvitað ágætt að taka hér umræðu um það hvernig menn vildu sjá það kerfi virka því að það liggur alla vega fyrir að skipulag Sameinuðu þjóðanna er ekki hafið yfir gagnrýni, enda er það eðlilegt, þegar það var sett á sínum tíma var það við allt aðrar aðstæður. Og þó svo að færa megi fram full rök fyrir því að þrátt fyrir allt hafi það staðist þokkalega tímans tönn þá held ég að allir séu sammála um að það megi auka skilvirkni þar.

Við höfum að sjálfsögðu ekki hugmynd um það á þessu stigi hvernig þessi kosning fer eða hvort kosning verður o.s.frv., því eins og staðan er í dag þá virðist sem þrjár þjóðir séu að sækja um tvö sæti. En mín tilfinning er sú eftir að hafa fylgst með þessum störfum að það sé unnið skipulega að þessu og fram til þessa hafa verið, eftir því sem maður kemst næst, góð viðbrögð og ég var afskaplega ánægður með þau störf sem þarna voru innt af hendi utanríkisþjónustunnar og hinnar svokölluðu fastanefndar og ég held að þetta hafi mjög góð áhrif á umræðuna.

Sömuleiðis tek ég undir að það er ánægjulegt að við séum jafnt og þétt og með öruggum hætti að verða virkari í þróunaraðstoð og ég held að það sé góð sátt um það í samfélaginu að við séum það. Ég held hins vegar að það skipti afskaplega miklu máli að við höfum það í huga með þessi mál eins og öll önnur þegar kemur að okkar fjármunum að þetta eru fjármunir fólksins í landinu og það skiptir máli að við höldum því upplýstu hvernig við verjum þessum fjármunum. Því það er auðvitað, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, margt gott gert og það skiptir máli að fólk viti af því.

En svona aðeins að lokum þá hefur mér komið nokkuð á óvart hér í umræðunni hve mikil áherslan hjá forustumönnum Samfylkingar og Vinstri grænna hefur verið á það að okkar stefna eigi að vera í helst eins mikilli andstöðu við Bandaríkin og mögulegt er, ef ég skil þessa umræðu rétt. Nú er það þannig að við sátum þarna t.d. þegar umræðan um viðskiptabann á Kúbu var tekið fyrir og bara til að upplýsa þingheim um það, ef menn vissu það ekki, þá var stefna Íslands á því sviði að aflétta viðskiptabanninu sem var þvert á áherslur Bandaríkjanna. Og ég veit ekki til þess að menn spyrji þá ágætu þjóð eitthvað sérstaklega um það hvernig menn eigi að greiða atkvæði og ég held að menn hafi aldrei nokkurn tímann gert það og það standi ekki til. En ég er ekkert viss um að þetta upplegg í umræðunni sé mjög gott.

Síðan verð ég að furða mig á umræðunni um Írak. Hér sagði formaður Samf. að innrás í Írak ætti enga réttlætingu, ég vek athygli á því, enga réttlætingu. Ég vil bara minna menn á það að Saddam Hussein mun fá sama dóm í sögunni og helstu harðstjórarnir, hvort sem það er Adolf Hitler, Maó eða Stalín. Það er hins vegar ekki létt verk að byggja upp land eftir atburði eins og þessa. Menn studdu hér, þ.e. forustumenn Samf., aðgerðirnar í Kosovo sem ég vitnaði til í andsvari í dag. Þar var nákvæmlega sama upp á teningnum þó að það sé ekki jafnmikið í fjölmiðlunum, m.a. var tekist á um það hjá Sameinuðu þjóðunum, farið yfir skýrslu um hvernig ástandið var þar. (Forseti hringir.) Það tekur auðvitað á að byggja upp þjóðfélag eftir slík átök.