Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:58:17 (1653)

2003-11-13 16:58:17# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum talað um að fólk horfi á hlutina í gegnum einhver gleraugu. Það þýðir einfaldlega að fólk sér ekki hlutina eins og þeir eru heldur eins og það vill sjá þá. Þannig hefur það verið í þessari umræðu í dag. Hér hafa stjórnarliðar verið að ræða við okkur og þeir hafa hlustað á umræðuna með sérstökum heyrnartækjum. Þeir leggja út af öllu sem við segjum út frá því hvernig þeim líður og út frá því hvernig þeir vilja bregðast við ræðum okkar.

Það er nákvæmlega sama afstaða hjá mér og Samf., bara svo að það sé alveg ljóst. Okkur finnst að illa hafi verið haldið á þessum málum. Við erum ósátt við að Ísland hafi farið með 30 viljugum þjóðum. Við erum sífellt að minna á að réttlætingin var sú að það yrði að flýta sér þarna inn út af gereyðingarvopnum og það mátti ekki gefa Hans Blix aðeins meiri tíma til að finna þau. Þau hafa ekki fundist og nú er búið að endurskoða söguna og segja: Við urðum að fara þarna inn út af Saddam Hussein.

Það er algjör samhljómur í afstöðu okkar í Samf. hvað þetta varðar en það var þingmaðurinn sem hóf máls á þessari 50 ára vináttusögu, og ég er sammála henni og ég hef lent á nokkrum fundum þar sem ég hef beinlínis lagt út af þessu: Hvernig kemur maður fram við vinaþjóð og hvernig kemur risaríki á alþjóðamælikvarða fram við smáþjóð sem er með ríka réttlætiskennd? Svarið er: Ekki svona.