Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:00:06 (1654)

2003-11-13 17:00:06# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef menn fara út í þessi mál varðandi Írak og afstöðu okkar, stendur alltaf eftir, þegar menn hlusta á talsmenn Samfylkingarinnar, að það er ekkert samræmi í viðbrögðum þeirra annars vegar þegar hlutirnir komu upp í Kosovo og hins vegar í Írak. Það var nákvæmlega sama dæmið. Ef eitthvað voru ályktanir Sameinuðu þjóðanna mun ákveðnari í tilfelli Íraks, enda liggur fyrir að eftir Kúveit-stríðið undirgekkst Írak ákveðna skilmála sem Saddam Hussein fór aldrei eftir. Það er bara svo einfalt.

Það hefði getað gerst við einhverjar aðrar aðstæður, það hefði getað gerst í seinni heimsstyrjöldinni að menn hefðu ákveðið að þær þjóðir sem væru sigraðar þar þyrftu að gangast undir ákveðna skilmála og því væri fylgt fast eftir. Svo einfalt er það mál.

Menn geta síðan rætt gjöreyðingarvopnin. Það liggur fyrir, eins og kom fram hjá utanrrh., að þau voru til staðar en enginn veit hvar þau eru. Það er staðreynd málsins. Saddam Hussein gerði aldrei grein fyrir því.

Hins vegar er auðvitað stóra málið það að einn versti einræðisherra sögunnar, sem ég vek athygli á að er búinn að drepa eins og eitt stykki íslenska þjóð af sínu eigin fólki. Það hlýtur að vera afskaplega mikið fagnaðarefni að hann skuli vera farinn frá og ég vona að uppbyggingin í þessu landi, sem er gríðarlega stórt verkefni, muni ganga vel og muni einnig ganga vel í Kosovo. En ég vek athygli á því, þó að það sé ekki í heimsfréttunum og forustumenn Samfylkingarinnar studdu það á sínum tíma, að þar eru gríðarleg vandræði, eins og alltaf þegar menn eru að byggja upp eftir slík átök.