Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:04:11 (1656)

2003-11-13 17:04:11# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vitum við það. Samfylkingin styður ekki Bush og öfgar Bush-stjórnarinnar en studdi væntanlega öfgar Clinton-stjórnarinnar í Kosovo. Þá er það kristaltært og við förum ekkert í grafgötur með það. (Gripið fram í.) Bara svona til að útskýra það fyrir hv. þm. þá var Clinton-stjórnin við völd þegar ákveðið var að fara í hernaðaraðgerðir í Kosovo sem Samfylkingin studdi einarðlega. Ekki er með nokkrum rökum hægt að halda því fram að það sé eðlismunur á þeim hlutum, annars vegar Írak og Kosovo, sama hvernig menn reyna að snúa sig út úr því.

En það er ágætt að menn komi hér í löngum röðum í Samfylkingunni og segist vera vinir Bandaríkjanna og að þeir líti á Bandaríkjamenn sem sína vinaþjóð og er það í sjálfu sér vel.

Ég verð að biðja hv. þm. afsökunar á því að ég hafi haldið að það væri stefna Samfylkingarinnar að við ættum að ganga inn í Evrópusambandið. Það er alltaf verið að tala um það hér í ræðum forustumanna Samfylkingarinnar að hér séu einhver tímamót og ræðurnar þess eðlis að við séum að leggja grunninn að því að ganga inn í Evrópusambandið. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og formaður Alþýðuflokksins talaði um það eða lét að því liggja að hann væri að toga aðra stjórnmálaflokka inn í nútímann með því að opna fyrir þeim Evrópudrauminn.

Það er ágætt að það komi fram ef hv. þm. hefur ekki áhuga á að ganga í Evrópusambandið. Ef það er hins vegar stefna Samfylkingarinnar að ganga í Evrópusambandið þá er það tollabandalag og þá göngumst við inn á allar þeirra viðskiptastefnur. Þá sér Evrópusambandið um okkar áherslur hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Ef hv. þm. hefur hins vegar ekki áhuga á því að ganga í Evrópusambandið vil ég gjarnan að hann komi hér upp og tilkynni það. Það eru kannski enn ein tímamótin í þessari umræðu.