Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:07:55 (1658)

2003-11-13 17:07:55# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins vegna Kosovos og Íraks, ég sagði aldrei að þetta væri eitt og sama stríðið. En aðstæður voru þær sömu og ef menn halda því fram að það hafi verið eining í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar menn fóru inn í Kosovo er það alrangt. Það var engin eining þar. Það er nú sjaldnast þannig í alþjóðasamfélagi að það sé samstaða um alla hluti.

En aðeins út af Evrópusambandinu, þá get ég bara ekki tekið þátt í þessum leik --- og hv. þm. verður að afsaka það --- að taka það trúanlegt að það sé sérstök stefna að hefja aðildarviðræður og sjá hvað er í pakkanum. Það vita allir sem skoða þessi mál og kynna sér þau hvað það þýðir fyrir íslenska þjóð að ganga inn í Evrópusambandið. Svo geta menn verið því sammála eða ósammála.

Það eru engin dæmi þess, virðulegi forseti, að þjóð hafi farið í aðildarviðræður til að kanna hvað kæmi út úr þeim. (Gripið fram í: Norðmenn.) Það sem gerðist hjá Norðmönnum var að þeir felldu þetta tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er allt annað mál. En það var stefna ríkisstjórnar Noregs að ganga í Evrópusambandið, þess vegna var farið í aðildarviðræður.

Sá stjórnmálaflokkur sem ætlar að láta taka sig alvarlega segir ekki: Við ætlum að fara í aðildarviðræður og sjá hvað gerist. Það er ekki þannig. Þess vegna verður hv. þm., virðulegi forseti, að fyrirgefa mér það að nenna ekki að taka þátt í þessum leik Samfylkingarinnar. Þetta er mjög einfalt. Menn vita það sem vilja vita og vilja skoða það hvað felst í því fyrir íslenska þjóð að ganga inn í Evrópusambandið. Ef þeir eru fylgjandi því þá hefja þeir aðildarviðræður og reyna eðli máls samkvæmt að ná eins góðum samningum og mögulegt er. En sveigjanleikinn er ekki mikill eins og allir vita.

Þess vegna er ég ekki til í að taka þátt í þessum leik Samfylkingarinnar. En ef hv. þm. er ekki fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið er það í sjálfu sér hið besta mál.