Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:54:13 (1667)

2003-11-13 17:54:13# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Fyrir mitt leyti legg ég fyrst og fremst áherslu á það að þunginn eigi að vera eins mikið og kostur er á hinn efnislega og pólitíska undirbúning, að Ísland komi vel undirbúið undir það að hafa skoðanir á hlutunum og sjálfstæðar meiningar byggðar á þekkingu og skilningi á högum manna vítt og breitt um heimsbyggðina, en miklu síður að menn séu að leggja peninga í hreina auglýsingamennsku eða hreinan lobbíisma fyrir sætinu. Það verður þá frekar að taka því að það tapist þrátt fyrir heiðarlega baráttu og málefnabaráttu heldur en hitt að ætla að kaupa þetta með áróðri.

Ég vil svo segja það um endurskipulagningu öryggisráðsins að það er náttúrlega gríðarlega stórt og mikilvægt viðfangsefni. Það kann vel að vera að eina leiðin sé að viðhalda neitunarvaldi þarna inni að einhverju leyti, kannski taka fleiri þjóðir þar inn sem fái hlutdeild í takmörkuðu neitunarvaldi. Í mínum huga væri best að koma því alveg út en hafa í staðinn áskilnað um aukinn meiri hluta þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar að það þyrfti að vera lágmarkssamstaða upp á 4/5 eða eitthvað því um líkt þegar hinar afdrifaríkustu ákvarðanir eru teknar, t.d. um valdbeitingu eða annað því um líkt.

Hin leiðin væri sú að takmarka neitunarvaldið við hluti sem vörðuðu beinlínis þjóðarhagsmuni fjölmennustu þjóðanna og það yrði þá notuð einhver slík skilgreining. Auðvitað er fáránlegt að Indland sé með allt aðra og miklu veikari stöðu en tvær eða þrjár 50 millj. Evrópuþjóðir, svo dæmi séu tekin. Ef þetta væri nálgast á einhverjum slíkum forsendum væri kannski hægt að sætta sig við að nokkur fjölmennustu ríki heims hefðu bremsuvald gagnvart sínum þjóðarhagsmunum sem tala fyrir hönd kannski fjórðungs eða fimmtungs mannkyns, en ekki núverandi ástand.