Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:58:42 (1669)

2003-11-13 17:58:42# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið nefnt mörgum sinnum í ræðum manna hér í dag að stærsti hluti af ræðu hæstv. utanrrh. hafi verið um öryggisráðið, mér finnst fara ágætlega á því að við endum þessa umræðu einmitt á öryggisráðinu og engu öðru.

Af því tilefni vil ég segja að Samfylkingin leggur mikla áherslu á þátttöku í alþjóðasamstarfi og að vera fullgildur aðili á slíkum vettvangi og að fullt jafnræði ríki milli aðildarþjóða. Sameinuðu þjóðirnar eru efstar á blaði yfir mikilvægi alþjóðasamstarfs Íslands og það held ég að við séum öll sammála um.

Ísland og Norðurlöndin eru þekkt sem lönd friðar og jafnréttis. Það er aldagömul hefð á Íslandi fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum, mannréttindum og virðingu fyrir öðrum og þar sem Ísland er þátttakandi á friðarstarf að vera í öndvegi. Þetta hef ég sagt fyrr í dag og vil árétta þetta.

Ísland er á jafnréttisgrundvelli þátttakandi í samstarfi Norðurlanda og Evrópu og ég hef gert ráð fyrir því að í öryggisráðinu muni Ísland tala jafnframt í þeirra nafni. Ísland getur axlað þessa ábyrgð og það er enginn efi hjá mér að við eigum að sækjast eftir þessu. Samfylkingin hefur stutt utanrrh. í umræðunum í dag hvað þetta varðar, en hann hefur líka fengið að heyra á hvaða forsendum við teljum að sú aðild sem hér er talað um eigi að vera.

Ég legg mikla áherslu á það og það eru mín lokaorð, virðulegi forseti, að yfirlýsing ráðherra um að tryggja aðkomu þingsins að undirbúningnum gangi eftir. Það væru ný og betri vinnubrögð sem ég styð.