Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 18:00:46 (1670)

2003-11-13 18:00:46# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir það sem hún sagði um þessi mál og fyrir þann stuðning sem hún hefur sett fram. Ég tel að það sé allt önnur tóntegund en formaður Samf. byrjaði hér með í umræðunni í dag þegar hann líkti vitsmunastigi utanrrh. við vitsmunastig strútsins, taldi að ræðan bæri vott um það og að hún hefði átt að fjalla um eitthvað allt annað. Ég tók það ekki sem mikinn stuðning. Og mér fannst alveg út í hött að ræða þessi mikilvægu framtíðarmál á því plani.

En ég heyri að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir telur þetta mjög mikilvægt mál og ég veit að hún meinar það sem hún segir. (RG: Formaður Samf. líka.) Og formaður Samf. líka? Ja, hann hefur þá afskaplega undarlegar aðferðir til að tjá sig, sá formaður. Ég a.m.k. skil það ekki og finnst það með ólíkindum. Það má vel vera að ég hafi algjörlega misskilið ræðu formannsins; það væri þá ekki alveg í fyrsta skipti sem ég hef misskilið hann. Hann kom í ræðustól og honum var mikið niðri fyrir en ef það hefur verið tómur misskilningur finnst mér það mjög gott og skal þá biðjast afsökunar á því að hafa misskilið manninn. En mér fannst ekkert fara á milli mála hvað þessi ágæti formaður var að fara.