Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 18:03:50 (1672)

2003-11-13 18:03:50# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þingmanni fyrir það sem hún hefur sagt og ég geng út frá því að hún sé talsmaður Samf. í þessu máli, (RG: Hún er það.) en ekki formaðurinn. Og ég fagna því. Ég tók orð formannsins svona og það er gott ef það á ekki að taka þau mjög alvarlega, ég fagna því. Hann taldi að ég hefði verið eitthvað sérstaklega skapvondur og úrillur í þessari umræðu. Hann er vanur að taka það fram í öllum umræðum sem hann á í við mig, einhverra hluta vegna. En mér fannst ekki liggja neitt sérstaklega vel á formanninum þegar hann kom hingað í ræðustól.

Ég er ánægður með það að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem er í utanrmn., tekur af skarið um þessi mál. Ég vænti þess að við getum náð sem bestri samvinnu um að Ísland verði aðili að öryggisráðinu 2009 og 2010. Það er mikilvægt að við séum sammála um það. Við vitum ekkert hvaða flokkur fer með utanríkismál á þeim tíma og ég held að við ættum að hafa metnað til þess að reyna að undirbúa það sem best þannig að sá utanrrh. sem tekur við því vandasama verkefni sé vel undir það búinn og hafi sem mestan stuðning þings og þjóðar til þess. Á það legg ég áherslu. Ég er alveg viss um að það verður ekki sá sem hér stendur sem verður í þeirri aðstöðu.