Samningur á sviði refsiréttar um spillingu

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 18:06:03 (1673)

2003-11-13 18:06:03# 130. lþ. 27.2 fundur 294. mál: #A samningur á sviði refsiréttar um spillingu# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning á sviði refsiréttar um spillingu sem gerður var í Strassborg 27. janúar 1999 og er mjög mikilvægur samningur.

Með samningnum er stefnt að því að samræma ýmsar efnis- og formreglur aðildarríkjanna er tengjast tilteknum tegundum spillingarbrota og bæta alþjóðlegt samstarf í því skyni að auðvelda saksókn vegna þessara brota. Við gerð samningsins var gengið út frá því að spilling samanstæði af mútum eða annarri háttsemi sem brýtur gegn skyldu manna sem falin hefur verið ábyrgð af opinberum eða viðskiptalegum toga og sem ætlað er að ná fram ávinningi af einhverju tagi fyrir þá sjálfa eða aðra sem þeir eiga ekki tilkall til. Út frá þessum víðtæka skilningi voru tilteknar tegundir spillingar skilgreindar og hefur samningurinn að geyma verknaðarlýsingar þeirra spillingarbrota sem aðildarríkjunum ber að lýsa refsiverð í lögum sínum. Þær tegundir spillingar sem hér um ræðir eru mútuboð og mútuþágur til ýmissa opinberra aðila, innlendra sem erlendra, mútuboð og mútuþágur til aðila í einkageiranum og áhrifakaup.

Í samningnum er einnig kveðið á um ýmsar formreglur sem stefna að því að auka skilvirkni baráttunnar gegn spillingu. Samningurinn hefur því víðtækara gildissvið en fyrirliggjandi alþjóðasamningur á þessu sviði sem flestir hafa eingöngu snúið að afmörkuðum hópi manna eða takmarkaðri tegund spillingar.

Í formála samningsins sem gerður er á vegum Evrópuráðsins er lögð áhersla á að spilling ógni réttarreglu, lýðræði og mannréttindum, grafi undan góðum stjórnarháttum, sanngirni og félagslegu réttlæti, raski samkeppni, hindri efnahagsþróun og ógni stöðugleika stofnana lýðræðisins. Samningurinn er afrakstur áralangs starfs við að þróa alþjóðlegt kerfi til að berjast gegn spillingu. Alþjóðlegt átak þarf til þess að ná árangri í baráttunni gegn spillingu og er samningurinn því opinn fyrir aðild ríkja, jafnt innan sem utan Evrópuráðsins.

Til þess að tryggja frekari árangur baráttunnar gegn spillingu var svonefndum ríkjahópi gegn spillingu komið á fót. Ríkjahópurinn hefur það markmið að auka getu þátttökuríkja hópsins til þess að berjast gegn spillingu með því að grípa til aðgerða sem gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar á þessu sviði. Eftirlit með framkvæmd samningsins er falið starfshópnum gegn spillingu og þau ríki sem ekki eru aðilar að hópnum verða sjálfkrafa aðilar að honum þegar samningurinn öðlast gildi að því er þau varðar.

Spillingarsamningurinn öðlaðist gildi 1. júlí 2002. Nú hafa 42 aðildarríki Evrópuráðsins undirritað samninginn auk Mexíkós, Bandaríkjanna og Hvíta-Rússlands og 21 ríki fullgilt hann. Þessi samningur var undirritaður 27. janúar 1999 og þess vegna er mikilvægt að við fullgildum hann sem fyrst.

Það þarf að gera breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, og á lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka, nr. 144/1998, sbr. lög nr. 99/2002, til að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem spillingarsamningurinn leggur aðildarríkjum á herðar. Dóms- og kirkjumrh. hefur þegar lagt fram lagafrv. þar að lútandi hér á Alþingi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.