Bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:11:13 (1683)

2003-11-17 15:11:13# 130. lþ. 28.91 fundur 154#B bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um að það sé nauðsynlegt að forseti og forsn. þingsins taki fyrir þau tilmæli sem komið hafa frá ráðherrum, frá handhöfum framkvæmdarvaldsins, um starfshætti fjárln. og Alþingis við fjárlagagerð.

Hér hefur verið greint frá því að einstök ráðuneyti hafi sent bréf til stofnana sinna --- ég veit ekki hversu margra aðila í samfélaginu --- um að ganga ekki með erindi sín á fund fjárln. Í fjárln. hefur reyndar verið óskað eftir því að fá afrit af þessu bréfi og þessum bréfaskiptum öllum til þess að sjá hvernig þar er um orð búið.

Þess er vænst að bréfin verði kunngerð og rædd í fjárln. við fyrsta tækifæri, enda var einmitt ákveðið á fundi nefndarinnar núna fyrir helgina að þetta mál yrði þar tekið alveg sérstaklega upp og rætt. Engu að síður er þetta svo alvarlegt mál, virðulegi forseti, varðandi sjálfstæði þingsins og eðlileg og nauðsynleg vinnubrögð fjárln. sem starfar í umboði þingsins að svona tilskrif eru algjörlega forkastanleg. Þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. forseta sé gert kunnugt um hvað í gangi er, hvers konar valdbeiting og hroki er á ferðinni gagnvart þinginu og nefndum þess til þess að forseti geti látið málið til sín taka.