Bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:15:54 (1685)

2003-11-17 15:15:54# 130. lþ. 28.91 fundur 154#B bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég sé mig knúna til að benda hæstv. forseta á að það sem hér er farið fram á og það sem hv. þm. hafa bent á er að þörf er á því að virðulegur forseti okkar hér á hinu háa Alþingi skrifi hæstv. forsrh. bréf, minni hann á valdmörk löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, minni hann á það hvar fjárveitingavaldið liggur formlega séð samkvæmt stjórnarskránni o.s.frv.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst með ólíkindum að sitja undir þessari umræðu hér. Hvorki hefur virðulegur forseti þingsins séð ástæðu til að lýsa yfir áhyggjum sínum af þeim bréfum sem hér er vitnað í né heldur sjá hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar svo mikið sem ástæðu til að reyna að svara. Ónei, herra forseti, hér sitja þeir landsfeður þessarar ríkisstjórnar, oddvitar ríkisstjórnarinnar, brosandi undir umræðunum rétt eins og tveir feður sem horfa á óknyttin börn sín og bíða þess að ólátunum linni.

En, herra forseti, málið er alvarlegra en svo. Það hlýtur að vera krafan, herra forseti, að virðulegur forseti taki þetta mál til alvarlegrar skoðunar með sjálfstæði þingsins í huga, ekki síst þar sem við höldum bráðlega upp á 100 ára afmæli heimastjórnar.