Bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:17:47 (1687)

2003-11-17 15:17:47# 130. lþ. 28.91 fundur 154#B bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að þetta er aðeins angi af miklum mun stærra máli, máli sem við erum búin að vera að kljást við árum saman, sem er þessi sífellda togstreita milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.

Það er með ólíkindum að forsrn. skuli senda slíka tilskipun til Alþingis en það er ekki síður merkilegt, herra forseti, að forseti sjái ekki ástæðu til að bregðast við og segja þingheimi hvernig Alþingi hafi brugðist við þessu tilskipunarbréfi forsrn. Hafa einhver viðbrögð orðið af hálfu Alþingis vegna þeirrar tilskipunar að Alþingi og undirstofnanir þess skuli ekki ræða við fjárln.?

Við höfum tekið þetta fyrir í fjárln. og lítum það mjög alvarlegum augum. Þar hefur verið samþykkt að óska eftir því að bréf fjmrn. berist nefndinni og einnig skýrsla um það hvernig önnur ráðuneyti brugðust við bréfi fjmrn. Það er augljóst mál að það þarf líklega einnig að óska eftir upplýsingum um það hvernig Alþingi brást við bréfaskriftum fjmrn.

Við höfum enn fremur samþykkt það í fjárln., og þar stendur nefndin öll einhuga að baki, að óska eftir því að tekið verði saman minnisblað af hálfu nefndasviðs vegna þessara bréfaskrifta. Það er þess vegna ljóst, herra forseti, að þetta mál mun verða áfram til umfjöllunar, bæði í fjárln. og ég vænti í forsn. og einnig hér í þingsölum. Því er með ólíkindum að hæstv. forseti og hæstv. forsrh. setji hér á örstutta leiksýningu um það hvernig megi komast hjá því að ræða málin.