Flutningskostnaður

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:24:06 (1690)

2003-11-17 15:24:06# 130. lþ. 28.1 fundur 147#B flutningskostnaður# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það hafi verið fyrr en árið 2001 sem umræður hófust um að það væri mikill kostnaður fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni, t.d. iðnfyrirtæki sem eru í samkeppni við önnur sem eru nær markaðnum, í sambandi við flutningskostnað þannig að það má ábyggilega rekja þá umræðu lengra aftur í tímann.

Það var hins vegar haustið 2002 sem Byggðastofnun fékk þetta mál til umfjöllunar --- Byggðastofnun heyrir undir iðnrn. --- en áður hafði verið nefnd að störfum um flutningskostnað sem hæstv. samgrh. skipaði. Byggðastofnun fékk ákveðið hlutverk sem var það að útfæra hugmyndir sem gætu verið nýtilegar í þessu sambandi og gerði stofnunin það.

Þessar tillögur hafa birst ríkisstjórn og við höfum rætt þær þar. Hins vegar hefur ekki verið tekin sú pólitíska ákvörðun að fara út í styrki vegna flutningskostnaðar --- sú leið er líklegust til árangurs --- þar sem styrkir eru almennt ekki heimilaðir samkvæmt EES-samningnum. Styrkir sem snúa að því að greiða þeim fyrirtækjum sem sýnilega verða fyrir kostnaði af þessum sökum ættu samt að ganga. Hins vegar þurfum við að fá svör frá Eftirlitsstofnun EFTA um það hvort hún heimilar þessar útfærslur. Það er þar sem við erum stödd í dag, ESA er að fjalla um þessar tillögur og þegar svar berst er kominn grundvöllur til þess að ræða málið frekar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu máli því að við erum sammála um að það sé mikilvægt fyrir landsbyggðina.