Flutningskostnaður

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:26:07 (1691)

2003-11-17 15:26:07# 130. lþ. 28.1 fundur 147#B flutningskostnaður# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar þó að ég verði að segja að það valdi mér vonbrigðum hvað þetta tekur langan tíma.

Ég vil svo geta þess hér að ríkisstjórnin hefur ákveðið að bæta gráu ofan á svart, ef svo má að orði komast, í sambandi við flutningskostnað vegna þess að ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frv. um olíugjald sem á að vera þannig útfært að olíuverð mun hækka upp í 90--95 kr. Þar að auki, virðulegi forseti, eiga allir flutningabílar að keyra eftir mæli og borga sérstakan skatt eftir eknum kílómetrum. Þetta mun líka fara þráðbeint út í verðlagið, virðulegi forseti, og að mati þeirra sem hafa fjallað um málið, sérfræðinga á þessu sviði, mun það þýða 15--20% hækkun flutningsgjalda, þ.e. skattahækkunin sem er í meðförum hjá efh.- og viðskn. núna og þetta olíugjald.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það liður í jöfnun flutningsgjalda að hækka þessa landsbyggðarskatta? Vinna saman hugur og hönd í hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum?