Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:36:33 (1699)

2003-11-17 15:36:33# 130. lþ. 28.1 fundur 148#B breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Það má alveg skilja orð hæstv. fjmrh. á þann veg að uppsagnir verði einmitt sú leið sem forstöðumenn stofnana munu hafa heimild til og munu grípa til. Þetta sé þeirra eini möguleiki til þess að lækka rekstrarkostnað, miðað við þann fjárlagaramma sem þeir hafa, þar sem laun starfsmanna eru það hátt hlutfall af rekstri.

Ég vil mótmæla því, herra forseti, að það sé svo erfitt að losa sig við óhæfa starfsmenn. Það er eingöngu þetta formsatriði um áminningu og formfestan varðandi ráðningu og uppsagnir sem eru hjá opinberum starfsmönnum. Enda hafa þeir meiri og ríkari skyldur en starfsmenn úti á hinum almenna vinnumarkaði. Það þarf því að hafa meiri formfestu. Vilji forstöðumenn breyta starfseminni þarf að hafa meiri fyrirvara. En að fara þessa leið til þess að auðvelda forstöðumönnum að segja upp starfsmönnum til þess að vera innan fjárlaga finnst mér ekki hæfa.