Nám í hagnýtri fjölmiðlun

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:45:07 (1705)

2003-11-17 15:45:07# 130. lþ. 28.1 fundur 150#B nám í hagnýtri fjölmiðlun# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Um löggiltar iðngreinar er áratugahefð fyrir því að nemendur fari í þjálfun og taki laun samkvæmt kjarasamningum. Eðli málsins samkvæmt kemur menntmrn. ekki að slíkum samningum enda eru þeir alfarið mál vinnumarkaðarins.

Að því er varðar það nám sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, þessar nýju fjölmiðlagreinar, er ekki til hefð um þetta nám á vinnustað sem er hins vegar á ábyrgð atvinnulífsins. Starfsgreinaráðin sem hv. þm. nefndi vinna nú að því að lýsa námi á vinnustað og þar er að finna leiðbeiningar til atvinnulífsins um hvaða kröfur það þarf að uppfylla til að gegna þessu hlutverki á vinnumarkaði.

Það er rétt að atvinnulífið hefur átt í erfiðleikum með að útvega nemendum sem lokið hafa upplýsinga- og fjölmiðlagreinum stöðu til starfsþjálfunar og ráðuneytið hefur gripið til þess úrræðis að kanna stöðuna og eftirspurnina eftir starfsfólki með sérstökum samningi við Prenttæknistofnun um að kanna meðal fyrirtækja möguleika þeirra á að taka nemendur til starfsþjálfunar.

Fyrir utan þetta er rétt að geta þess að nú stendur yfir tilraun á vegum menntmrn. um samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um breytta skipan vinnustaðanámsins sem hv. fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni. Þar verður tekið sérstaklega á samskiptum atvinnulífsins og skólanna og á því hlutverki sem vinnustöðunum er ætlað að sinna gagnvart nemendum. Það er því verið að skoða þessi mál sem hann nefndi sérstaklega og um þau gilda nokkuð aðrar reglur en hið löggilta starfsnám.