Nám í hagnýtri fjölmiðlun

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:47:19 (1706)

2003-11-17 15:47:19# 130. lþ. 28.1 fundur 150#B nám í hagnýtri fjölmiðlun# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Hjálmar Árnason:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. þessi svör og fagna því að samningur skuli hafa verið gerður við Prenttæknistofnun um að líta eftir starfsþjálfunarplássum fyrir þá nemendur sem bíða og hafa beðið um hríð eftir starfsþjálfun í hagnýtri fjölmiðlun.

Ég fagna því sömuleiðis að vinnustaðabækur verði teknar til endurskoðunar. Það var full þörf á því.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að hér er ekki um löggilta iðngrein að ræða og gildir að sjálfsögðu annað um slíka námsgrein en hinar löggiltu. Það breytir samt engu gagnvart þeim nemendum sem skráðu sig í námið og geta í rauninni ekki formlega lokið því vegna þess að starfsþjálfun vantar og það hlýtur að vekja miklar spurningar að atvinnulífið sjálft skuli ekki sýna meiri metnað en svo að vilja beinlínis taka nemendur í starfsþjálfun. Hver er það sem nýtur góðs af því ef ekki atvinnulífið sjálft? Það er mikilvægt að eyða óvissu nemenda sem ekki geta formlega lokið námi sínu.