Nám í hagnýtri fjölmiðlun

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:49:50 (1708)

2003-11-17 15:49:50# 130. lþ. 28.1 fundur 150#B nám í hagnýtri fjölmiðlun# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Hjálmar Árnason:

Hæstv. forseti. Ég tel reyndar að íhuga þurfi mjög vandlega hvort eftirspurn ein geti ráðið því hvort nemendur geti formlega lokið námi sínu eins og dæmin sanna með þessu og þess vegna má segja að það sé eðlilegt að leita, þegar samdráttur verður í tilteknum atvinnugreinum, annarra leiða eins og hæstv. ráðherra lýsti hér áðan, svo sem með samningi við Prenttæknistofnun. Sú leið er líka fær sem er farin í sumum iðngreinum, að skólarnir sjálfir annist stóran hluta af þessari verkþjálfun.

Meginatriðið er auðvitað að þegar nemandi hefur nám á tiltekinni braut þarf hann að vita nákvæmlega að hann geti lokið formlegu námi á þeirri braut. Það er mikil ábyrgð að skilja nemendur eina eftir. En ég ítreka að ég fagna því að nú séu hafnar viðræður við Prenttæknistofnun því að leysa verður vanda þessara nemenda sem eru svífandi í lausu lofti og hafa verið núna í um það bil hálft ár.