Starfslokasamningar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:52:37 (1710)

2003-11-17 15:52:37# 130. lþ. 28.1 fundur 151#B starfslokasamningar# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spyr um starfslok fyrrv. framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu sem, eins og ég hef áður gert grein fyrir á Alþingi, hefur verið gert upp við og, með leyfi forseta, langar mig að vitna til orða fyrrv. framkvæmdastjóra sem hún viðhafði í Ríkisútvarpinu 21. júlí í sumar þar sem hún segir við fréttamann um starfslok sín:

,,Já, það má segja það að þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun,`` og svo að ég vitni áfram í þetta umrædda viðtal spyr fréttamaður: ,,Þannig að þú ert sátt við að fara frá?`` Framkvæmdastjóri svarar: ,,Við þessar aðstæður er ég sátt við það en ég er auðvitað ekki sátt við aðstæðurnar.``

Í sjónvarpinu sama dag segir framkvæmdastjórinn fyrrverandi ... (GÁS: Þetta er undirbúið svar. Var þetta ekki óundirbúin fyrirspurn?)

(Forseti (HBl): Ég vil taka fram að eigi má, nema með leyfi forseta, lesa prentað mál.)

Má ég fá að svara fyrirspyrjanda sem spyr hér í óundirbúinni fyrirspurn? Ég vitna áfram í fréttir þennan dag og fréttamaður sjónvarps spyr hana hvort starfslok hennar hafi verið að hennar frumkvæði. Þá segir hún: ,,Nei það var það nú ekki. Þetta var, við vorum nú nokkuð samstiga í þessu. Ég var ákveðin í því fyrir fram að ég væri tilbúin til að halda þarna áfram störfum, ég ætlaði ekki að segja af mér, en ef ráðherra teldi þetta vera stofunni fyrir bestu þá er ég tilbúin að hætta.``

Eins og ég hef áður sagt var það sameiginleg niðurstaða okkar á þessum fundi að það væri heppilegast fyrir framhald starfsemi Jafnréttisstofu að hún hætti. Við gerðum með okkur munnlegan samning á þessum fundi um starfslok hennar, hvernig þeim skyldi háttað, í vitna viðurvist og það hefur verið gert upp samkvæmt þeim samningi.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hæstv. ráðherra á að samkvæmt 58. gr. þingskapa má eigi, nema með leyfi forseta, lesa upp prentað mál.)