Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:11:26 (1723)

2003-11-17 16:11:26# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Þekking er sú auðlind okkar Íslendinga sem framtíð og velferð þjóðarinnar byggir á. Í vel rúman áratug hafa forsvarsmenn atvinnulífs, fræðimenn og stjórnmálamenn hér á landi sem annars staðar lagt þunga áherslu á uppbyggingu þekkingargreina því að þar væru tækifæri á vel launuðum störfum fyrir æ betur menntaðar kynslóðir og þar gengi vöxtur og auðsköpun ekki á takmarkaðar auðlindir jarðar.

Í þennan áratug höfum við Íslendingar búið við meiri stöðugleika en áður og góðan hagvöxt. Því hefði mátt ætla að við hefðum borið gæfu til að byggja upp öflugar tækni- og nýsköpunargreinar líkt og frændur okkar á Norðurlöndum. Það verður því að segjast eins og er að það olli vonbrigðum að lesa nýlega skýrslu um samanburðarhæfni Íslands frá hinni virtu stofnun World Economic Forum. Þrátt fyrir að Ísland lyftist hvað samkeppnishæfni varðar úr tólfta sæti í það áttunda, einkum vegna áhrifa ál- og virkjunarframkvæmda, þá virðist það nokkuð skammgóður vermir.

Þegar hins vegar er litið til stöðu tækni og nýsköpunar sést að þar drögumst við aftur úr. Við höfum fallið í 15. sæti á þessu ári úr því 13. Sá kraftur sem býr í þekkingu okkar þjóðar rennur illa nýttur til sjávar.

En því miður er myndin enn svartari. Þegar horft er fram hjá hinni miklu tæknivæðingu íslenska samfélagsins --- en þar erum við fremstir allra þjóða í heimi, m.a. vegna mikillar netnotkunar --- og aðeins hlutur nýsköpunar skoðaður kemur alvarleg staðreynd í ljós. Við hröpum enn neðar og lendum í 21. sæti, langt fyrir neðan okkar næstu granna. Í nýsköpun erum við skussarnir í hópi þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við. Við erum tossarnir á bekk Norðurlanda og við erum aftarlega á meri Vesturlanda.

Eðlilegt er að spyrja, virðulegi forseti: Hvernig getur þetta gerst hjá einni ríkustu þjóð veraldar? Hvernig getur þetta gerst hjá tæknivæddustu þjóð heims? Hvernig getur þetta gerst hjá þjóð sem að öðru leyti stendur sig vel í alþjóðlegum efnahagslegum samanburði og hefur allar forsendur til að vera í fremstu röð? Hvernig getur þetta gerst, herra forseti?

Þó svo að maður undrist þá er ekki svo að þetta komi á óvart. Einstaklingar og félagasamtök þeirra sem starfa við þekkingarsköpun hafa horft upp á þessa þróun og margoft varað við. Á málþingi um sprotafyrirtæki sem haldið var á vegum Samtaka iðnaðarins 1. okt. sl. var samþykkt ályktun. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alvarlegt ástand ríkir um þessar mundir á Íslandi í fjármögnun sprotafyrirtækja. Á stuttum tíma hafa einkaaðilar, lífeyrissjóðir og fjárfestingafélög stærri fyrirtækja dregið sig út úr fjárfestingu í sprotafyrirtækjum.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Það má því segja að farvegur áhættufjármögnunar á Íslandi hafi þornað upp.``

Þessu til viðbótar má minna á forsíðufrétt í Viðskiptablaðinu frá því 29. okt. sl. Þar er óstand Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins áréttað og bent á að sjóðurinn geti ekki sinnt skyldum sínum að óbreyttu og svo verði um árabil nema til komi verulegir fjármunir úr ríkissjóði, a.m.k. 1 milljarður.

Hæstv. viðskrh. virðist hafa haft eitthvert veður af þessu óstandi því að í nýlegu blaðaviðtali viðurkenndi hún að hér á landi væri nýsköpunargjá sem ekki væri búið að brúa. Henni virðist því vera ljóst að keðja fjármögnunar nýsköpunarfyrirtæka er rofin. Þetta eru athyglisverð ummæli ráðherra Framsfl. sem hefur haft með þennan málaflokk að gera á níunda ár.

Þegar litið er til nágrannalanda kemur í ljós að opinberir aðilar hafa haft mun meira frumkvæði og kraft í uppbyggingu þekkingar og sprotafyrirtækja en við höfum kynnst hjá stjórnvöldum hér. Aðstæður hér á landi eru alls ekki síðri en í nágrannalöndum okkar. Það hvarflar að manni hvort ástæða þess hvernig komið er sé einfaldlega sú að stjórnvöld skilji ekki þarfir þekkingargreina og nýsköpunar, skilji ekki að stuðningur við vöruþróun og þekkingarsköpun í fyrirtækjum er samfélagsleg fjárfesting líkt og menntun.

Forvitnilegt væri að heyra í hæstv. viðskrh. hver ástæða þess sé að hennar mati að við erum að dragast aftur úr og erum í hópi skussa á sviði nýsköpunar. Hver eru áform ráðuneytis hæstv. ráðherra um að snúa þessari óheillaþróun við? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að brúa nýsköpunargjá þá sem hún hefur sjálf talað um?

Að síðustu: Nýsköpun á Íslandi við upphaf 21. aldar þarf stöðugt efnahagsumhverfi og kraftmikið vísinda- og listasamfélag þar sem saman fer þekking og óbeislaður sköpunarkraftur. Stjórnvöld geta átt ríkan þátt í að skapa slíkt umhverfi. Til þess þarf framtíðarsýn, langtímaskuldbindingar og staðfestu. Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki þurfa ekki skyndikynni við stjórnmálamenn þar sem ráðherrar opna hverja vefsíðuna á fætur annarri, afhenda léttvægar viðurkenningar eða beita sér fyrir átaksverkefnum. Þau þurfa heldur ekki undurblíð atlotsorð í eyru kvöldið fyrir kosningar. Þau þurfa þolinmæði, staðfestu og stuðning í verki. Virðulegur forseti. Hann hefur vantað.