Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:39:01 (1732)

2003-11-17 16:39:01# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁF
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún undirstrikar að það þarf að takast á við vanda þessarar greinar. Reyndar vakti það athygli mína að hv. þm. Sjálfstfl. una því vel að vera í 21. sæti og að það séu 20 önnur ríki þar sem ungt og efnilegt fólk sem fætt er hér og menntað væri kannski betur komið en hér. En Samf. unir því ekki.

Mér þóttu svör hæstv. viðskrh. einneigin vera dulítið rýr í roðinu. Vissulega eru áform um Tæknisjóð í rétta átt, en það fjárframlag sem til þessa sjóðs er ætlað finnst mér engan veginn viðunandi. Hvað eru 200 milljónir? Það er samanlagður aksturs- og risnu- og ferðakostnaður þeirra tveggja ráðuneyta sem hæstv. ráðherra fer fyrir. Til samanburðar við þann stuðning sem keppinautar íslenskra fyrirtækja í nágrannalöndunum okkar fá er rétt að benda á að í Finnlandi eru 32 fyrirtæki í líftæknigreininni einni sem hvert fær 133 milljónir á ári hverju til rannsókna. Líf- og upplýsingatækniáætlun frænda okkar á Írlandi þýddi, að teknu tilliti til stærða þjóðanna, að árleg fjárhæð hér á landi til ráðstöfunar væru 5 milljarðar íslenskra króna. Og í Frakklandi eru styrkir mjög rausnarlegir auk þess sem öll opinber gjöld, m.a. launatengd gjöld og skattar, eru afnumin 8--15 fyrstu árin hjá nýgræðingum í atvinnulífinu.

Ég heyrði engar tillögur af þessu tagi hjá hv. viðskrh. Það kom heldur ekkert fram varðandi stöðu Nýsköpunarsjóðs. Ég óttast því að á meðan hæstv. viðskrh. fer fyrir þessum málaflokki, virðulegi forseti, eigi Ísland eftir að hrapa enn neðar á lista þjóða yfir samkeppnishæfni á sviði nýtækni og nýsköpunar. Við erum ein ríkasta þjóð veraldar. Við eigum að vera í fremstu röð nýsköpunar.