Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 17:26:08 (1740)

2003-11-17 17:26:08# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu og frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þ.e. Fjármálaeftirlitið.

Fjármálaeftirlitið gegnir afskaplega mikilvægu hlutverki í síbreytilegum og hratt breytilegum markaði, sérstaklega verðbréfafyrirtækja og fjármálastofnana. Þetta hlutverk er eitthvað minna hjá lífeyrissjóðum eða tryggingafélögum, en engu að síður mjög mikilvægt. Fjármálamarkaðurinn hefur vaxið og breyst mjög hratt bara á síðustu mánuðum og það er mjög mikilvægt, frú forseti, að gott eftirlit sé með þeirri starfsemi sem þar á sér stað vegna þess hve mikið er að breytast og hve mikið er í húfi. Ég held að Fjármálaeftirlitið hafi staðið sig nokkuð vel miðað við hvað umfang starfsins er orðið mikið og breytingarnar miklar. Hins vegar má lengi betur gera.

Oft gera menn sér ekki grein fyrir því að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með þremur megingreinum; það eru bankar og sparisjóðirnir, það eru fjármálafyrirtæki ýmiss konar í einum hóp, síðan eru það vátryggingafélög og svo eru það lífeyrissjóðirnir. Hvert þessara sviða hefur ákveðin vandamál. Hjá bönkum og verðbréfafyrirtækjum eru það innherjavandamál og vandamál varðandi yfirtökur og annað slíkt sem hafa verið mjög tíð undanfarið. Hjá tryggingafélögunum eru það bótasjóðirnir og mat á þeim, gæta þess að þeir séu nægilega miklir til þess að ekki skorti fé þegar þarf að greiða út. Enn fremur þarf að gæta þess, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að iðgjaldið sé ekki of hátt. Þessi markmið rekast auðveldlega á. Hjá lífeyrissjóðunum þarf að gæta þess hvernig háttað er útlánum eða fjárfestingum lífeyrissjóðanna og alveg sérstaklega að gæta þess að þeir eigi ætíð fyrir skuldbindingum, þ.e. að gripið verði til harkalegra aðgerða ef nauðsyn krefur. Það liggur nú þegar fyrir.

Hins vegar er það ekki hlutverk Fjármálaeftirlitsins að meta t.d. hvort um sé að ræða oftryggingu vegna skaðabótalaganna hjá bílatryggingunum eða hvort það sé innbyggður galli í lífeyriskerfinu sem stafar af því að iðgjaldið er ekki rétt hjá lífeyrissjóðunum. Það er ekki tryggingafræðilega rétt. Það er ákveðinn flutningur á réttindum frá ungu fólki til eldri sjóðfélaga sem gerir það að verkum að sjóðir sem eru með mikið af eldri sjóðfélögum standa illa bara þess vegna, burt séð frá ávöxtun. Það getur þurft að skerða réttindi hjá fólki sem er skikkað með lögum til að greiða í lífeyrissjóð með mikið af eldri sjóðfélögum, bara af því að það lendir í þeim hópi. Það er spurning hvort það samræmist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að fólk sé skikkað að borga í ákveðinn lífeyrissjóð og vegna þess hvernig aldursdreifingin er í þeim sóði, verði þau réttindi skert. En þetta er innbyggður galli sem í rauninni aðrir en Fjármálaeftirlitið taka afstöðu til.

Í skjalinu sem liggur fyrir framan okkur er á fskj. II, álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins. Nefndarmenn koma fram með óvenjuharða gagnrýni því þeir telja, með réttu, að þeir séu einu aðilarnir sem eigi að gæta nauðsynlegs kostnaðaraðhalds vegna þess að þeir, eftirlitsskyldu aðilarnir, greiða sjálfir reksturinn.

Þeir segjast hafa bent á ýmis atriði, en Fjármálaeftirlitið hafi ekkert tillit tekið til þeirra, eins og stendur hér, með leyfi frú forseta:

,,FME hefur ekkert tillit tekið til þeirra málefnalegu ábendinga samráðsnefndar, sem fram komu í minnisblaði hennar, dags. 29. ágúst, við drög að rekstraráætluninni.``

Þar er bent á að það sé í síauknum mæli verið að veita Fjármálaeftirlitinu stjórnsýsluhlutverk, þ.e. að það sé að taka yfir stjórnsýsluhlutverk sem sé eðlilegt að ríkisvaldið greiði, en ekki þeir aðilar sem eiga að standa undir kostnaði við eftirlitið, sem er annar þáttur starfseminnar.

Síðan koma þeir með athugasemdir. Þeir benda á það, með leyfi frú forseta:

,,Samkvæmt drögunum er kostnaður vegna erlends samstarfs og funda erlendis áætlaður verulega hærri en fyrir líðandi ár og það þrátt fyrir að ljóst sé að þessi liður var stórlega ofáætlaður vegna ársins 2003. Samráðsnefnd ítrekar sín fyrri sjónarmið um að FME haldi kostnaði af slíku samstarfi innan eðlilegra marka, enda hljóta mjög tíðar utanferðir að bitna á vinnu að lögbundnu eftirlitshlutverki hér heima.``

Í lið 5 stendur enn fremur, með leyfi frú forseta:

,,Samráðsnefnd hefur undanfarin ár gagnrýnt harðlega há stjórnarlaun sem greidd eru til stjórnar FME. Þá er jafnljóst að sú viðtekna venja að boða varamenn til allra stjórnarfunda gengur gegn lýðræðislegum stjórnarháttum og ótækt að halda slíkri stefnu áfram.``

Þeir gagnrýna sem sagt mjög há stjórnarlaun hjá FME.

Svo benda þeir á að það þurfi að gæta þess að lágmarksgjald vegna eftirlits verði aldrei svo hátt að það komi í veg fyrir rekstur smæstu fyrirtækjanna. Það er náttúrlega ótækt ef eftirlitsgjaldið er orðið svo hátt að ekki sé hægt að reka fyrirtæki.

Að lokum benda þeir á að ekki verði hjá því komist að vekja athygli á því hversu lítinn hluta af heildarkostnaðinum stærsti aðilinn á lánamarkaðnum, þ.e. húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs, greiði. En Íbúðalánasjóður er, sem kunnugt er, stærsti aðilinn á lánamarkaði á Íslandi.

Þetta voru athugasemdir sem samráðsnefnd gerir við frumvarpið og ég held að það sé rétt að þær verði skoðaðar í hv. nefnd sem færi málið til umfjöllunar.

Ég vil undirstrika það að Fjármálaeftirlitið gegnir mjög mikilvægu hlutverki, sérstaklega eftir að það var sameinað úr bankaeftirliti og tryggingaeftirliti og styrkt á margan hátt, þá gegnir það sífellt veigameira hlutverki í því að halda uppi góðum siðum og góðri reglu á síbreytilegum og hratt breytilegum verðbréfamarkaði.