Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:01:20 (1745)

2003-11-17 18:01:20# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef af því nokkrar áhyggjur að þegar hæstv. ráðherra er spurð um einstaka þætti sem lúta að Fjármálaeftirlitinu sem hún ætti að hafa skoðun á og geta svarað þá hleypur hún alltaf í það skjól að vísa til sjálfstæðis Fjármálaeftirlitsins. Við gerum okkur öll grein fyrir sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins en við leggjum auðvitað áherslu á það að fá fram skoðanir hæstv. ráðherra á einstökum málum.

Telur hæstv. ráðherra að setja eigi reglur um starfskjör stjórnenda lífeyrissjóða með líkum hætti og hefur verið gert við kauphallarskráð félög? Ráðherrann hlýtur að geta haft skoðun á því þó að hún skipi ekki Fjármálaeftirlitinu fyrir í því máli og hún getur beint tilmælum til Fjármálaeftirlitsins þó að hún skipi því ekki fyrir. Það er þetta sem ég hef áhyggjur af. Og varðandi gegnsæið og að settar séu reglur sem rýmka heimildir til að greina frá niðurstöðum í einstaka málum þá er það ekki Fjármálaeftirlitið sem setur slíkar reglur heldur er það ráðherrann sem kemur með málið inn á þingið eða einstakir þingmenn flytja um það frv. Þarna er frumkvæðisskyldan á hendi hæstv. ráðherra, að fengnu auðvitað áliti Fjármálaeftirlitsins á þessu máli.

Ég spyr: Mun hæstv. ráðherra fylgja því eftir hér á þingi sem Fjármálaeftirlitið leggur til varðandi rýmkun á þessum heimildum?

Hæstv. forseti. Það er óþolandi að eiga í rökræðum við hæstv. ráðherra þegar maður fær aldrei nein svör frá hæstv. ráðherra í þessu efni sem ég hef verið að kalla eftir.

Varðandi tryggingafélögin og þá skýrslu sem þar kemur fram þá hljótum við að eiga heimtingu á því að geta rætt það mál hér. Þar mun örugglega koma fram ýmislegt um bótasjóðina sem við viljum ræða. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að við getum rætt þessa skýrslu á þingi eða a.m.k. að hún geri það sem í hennar valdi stendur til þess að hægt sé að gera það. Annað er ekki hægt að búa við, virðulegi forseti.