Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:05:20 (1747)

2003-11-17 18:05:20# 130. lþ. 28.4 fundur 304. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í fylgiskjölum að fyrirtækjum í Kauphöllinni hafi fækkað um u.þ.b. 30% á þremur árum, sýnist mér. Síðan sagði hæstv. ráðherra áðan að svona ákveðin fákeppniseinkenni væru á markaðnum. Ég held að öll íslenska þjóðin hafi nú fylgst með samruna fyrirtækja hér á landi á undanförnum árum og missirum og uppkaupum félaga hverju í öðru. Bankarnir hafa reyndar komið þar hressilega að á undanförnum vikum og mánuðum.

Ég vil þess vegna af þessu tilefni beina þeirri fyrirspurn til hæstv. iðn.- og viðskrh. hvort ráðherrann hafi hugleitt það að e.t.v. sé kominn tími til að fara að huga hér að löggjöf um hringamyndanir, að það verði skoðað og hvort ráðherrann hyggist taka það mál fyrir með einhverju lagi. Ég spyr af því tilefni m.a. að þau skynsamlegu frv. sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram í þingi hafa ekki fengið mikið brautargengi undir þessari ríkisstjórn frekar en hinni fyrri þannig að kannski er vísast að ráðherrann sjálfur hugi að því að koma með slík mál ef hún telur tilefni til.