Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:29:28 (1758)

2003-11-17 18:29:28# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni með það frv. til laga sem hæstv. iðnrh. mælti fyrir áðan. Vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan vil ég minna á að áður en farið var að greiða niður húshitunarkostnað á landsbyggðinni átti fólk það til jafnvel að borga háa reikninga og þegar til átti að taka var það fyrir heilu stigagangana. Þetta var fólk sem flutti utan af landi og fór að borga rafmagnsreikninga í Reykjavík sem voru miklu lægri þar. En ég tel þetta mikið byggðamál og ég vil lýsa ánægju minni með það.

Núna er verið að veita hækkun á hámarki stofnstyrkja til hitaveitna og árlega getur hver einstök hitaveita að hámarki fengið styrk er nemur 15% árlegrar heildarfjárveitingar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna. Þarna er, eins og hæstv. iðnrh. sagði, verið að veita svigrúm. Ég vil ítreka að þetta er mikið byggðamál.

Fyrir fimm árum hófst átak til jarðhitaleitar á köldum svæðum á landinu þar sem rafmagn er notað til húshitunar. Að þessu verkefni hafa komið ásamt iðnrn., Byggðastofnun og Orkusjóður og með þessu frv. er verið að marka því átaki sérstakan tekjustofn. Frumvarpið markar því fastari stefnu og markvissari vinnubrögð að mínu mati.

Lögð er til hækkun á hámarki stofnstyrkja til hitaveitna en að meðaltali hafa verið veittar 40 millj. kr. á ári í stofnstyrki til hitaveitna sl. fimm ár.

Virðulegi forseti. Heitt vatn er mikil auðlind og mjög mikils virði að geta nýtt slíka auðlind. Eins og fram kemur í grg. með frv. hefur tækni til borana og jarðhitaleitar fleygt mjög fram og kostnaður hefur farið hlutfallslega lækkandi ár frá ári en það er miklu meiri kostnaður við að bora á köldum svæðum og þarf að bora miklu dýpra en annars staðar þar sem heita vatnið rennur eða streymir sjálfkrafa upp. Ég tel að þetta sé mikill hvati til að leggja af rafhitun og niðurgreiðslur, ætti þá að sparast til lengri tíma litið. Það ætti með öðrum orðum að lækka en ekki að hækka.

Undanfarin ár hefur heitt vatn verið að finnast þar sem ekki var von á slíku áður. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með því. Einstaklingar hafa tekið sig fram við að bora eftir heitu vatni og náð ágætisvatni og þeir hafa fengið styrk einmitt frá Orkusjóði til þess að vinna að því og eins hjá Byggðastofnun. Ég tel að jarðhitaleitarátakið verði og hafi verið mikill hvati og upphaf að frekari aðgerðum.

Þess má geta að í frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 var gert ráð fyrir að niðurgreiðslur á rafhitun nemi 868 millj. kr. en með þessum aðgerðum ættu niðurgreiðslur að lækka til lengri tíma litið.