Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 18:58:19 (1765)

2003-11-17 18:58:19# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég tel að niðurgreiðslukerfið sé betra eins og það er í dag. Það er engin spurning. Það skal enginn fá mig til að andmæla því þegar betri stjórnsýsla er viðhöfð. Það er auðvitað þannig sem það á að vera. Ég tók það fram í ræðu minni að ég held að þetta hafi skánað mikið eftir að Orkustofnun var falin umsjón með þessu og allir þurftu að sækja um, með öðrum orðum að kerfið sé orðið gegnsærra. Jú, ég er innilega sammála því og þetta er til mikils batnaðar.

Ég sat í byggðanefnd forsrh. sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson stýrði á sínum tíma í aðdraganda kjördæmabreytingarinnar. Sú nefnd var þverpólitísk og skilaði frá sér þverpólitískum tillögum sem kallaðar voru bráðaaðgerðir. Ein megintillaga þessarar nefndar var um hækkun á þessum niðurgreiðslupotti til húshitunar og ég held að staðið hafi verið svo gott sem fullkomlega við þær tillögur sem við lögðum fram, svo gott sem fullkomlega. Það hefur tekist með, við skulum segja, samræmdu átaki. Ríkisstjórn var haldið við efnið og forsrh. og aðrir voru spurðir hvort ekki ætti að efna loforðið sem gefið var. Þó ég hafi ekki reiknað það nákvæmlega út nýlega þá hygg ég og vona að þetta sé komið í það horf sem nefndin lagði til. Þetta var þverpólitísk nefnd. Þetta var gott byggðamál og sem betur fer er það komið í höfn. Þó að um litla upphæð sé að ræða --- 45 millj. eru teknar í þetta --- þá er ég ekki sammála því að taka 5% úr þessum potti til að búa til þennan sjóð. Ég er ekki sammála því.