Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 19:11:14 (1768)

2003-11-17 19:11:14# 130. lþ. 28.5 fundur 305. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (stofnstyrkir, jarðhitaleit) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það mál sem við erum að ræða hér sé að mörgu leyti gott, en vara hins vegar við því, ef afleiðingarnar gætu orðið þær, að það fjármagn sem notað er til þess að greiða niður húshitunarkostnað úti um landið minnki, en það gæti leitt af efni 2. gr. frv. Ég er ekki viss um að þannig sé í pottinn búið vegna þess að það átak sem við höfum verið að gera á undanförnum árum með því að taka í notkun hitaveitur á svæðum sem áður voru talin köld hefur smátt og smátt orðið til þess að niðurgreiðslur á fjölda húsnæða úti um landið hafa minnkað. Ég er því ekki alveg viss um það, virðulegi forseti, að þó að þessi 5% séu þarna inni að það þýði í reynd að niðurgreiðslan lækki, ég ætla alla vega að vona að svo sé ekki.

Hins vegar verð ég að segja það, virðulegi forseti, að ég dáðist svolítið að þeim flokkssystrum hér áðan, hvað annarri tókst sérstaklega vel að ná hv. þm. Kristjáni L. Möller upp og hinni, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, að ná honum fljótt niður. Það var dálítið aðdáunarvert og sýnir kannski hversu mikil hæfni býr í þessum ríkisstjórnarflokki, að geta bæði náð mönnum upp með tiltölulega stuttum fyrirvara og líka niður ef á þarf að halda. Mönnum er ýmislegt til lista lagt, virðulegi forseti.

Þetta mál sem við erum hér að ræða tel ég að sé, eins og ég sagði áður, gott mál, og ég vona svo sannarlega að sú útfærsla sem hér er verið að leggja til geti orðið til þess og stuðlað enn frekar að því að við nýtum orkugjafa eins og heitt vatn í iðrum jarðar og það takist að nýta þann orkugjafa á fleiri svæðum en hingað til.

Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, segja það, og ætla ekkert að hafa langt mál um þetta, að það skiptir ofboðslega miklu máli fyrir íbúa á landsbyggðinni að sú niðurgreiðsla á húshitunarkostnaði sem verið hefur, haldist að raungildi og alla vega lækki ekki. Ég vonast því sannarlega til þess að heimildarákvæðið sem er í 2. gr. og fjallar um að ráðherra sé heimilt að ákveða að það verði notað með þeim hófleika að það geti ekki orðið til þess að lækka niðurgreiðslur til húshitunar þar sem ekki er um aðra orkugjafa að ræða en rafmagn eða olíu, verði samþykkt.

Ég fagna því einnig að hér skuli standa í niðurlagi 1. gr. að niðurgreiðslan nái einnig til húshitunarkostnaðar og nýrra hitaveitna.

Ég held að að meginefni stefni frv. í rétta átt með þeim eina fyrirvara að sú sjóðsmyndun sem hér er lögð til leiði ekki til lækkunar. Ég hef þann fyrirvara á stuðningi við þetta mál en vona vissulega að útfærslan sé ekki þannig að það sé verið að stefna að lækkun með niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði á köldum svæðum landsins. Að þessu sögðu, virðulegi forseti, hef ég í hyggju að ljúka máli mínu og vonast til þess að þetta frv., sem hér er lagt til, samræmist því sem menn hafa verið að tala um, að reyna að efla byggð í landinu. Það væri afar illa farið ef frv. færi í aðra átt.