Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:04:20 (1772)

2003-11-17 20:04:20# 130. lþ. 28.7 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:04]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um alþjóðleg viðskiptafélög, nr. 31/1999, sem er 312. mál þingsins á þskj. 358.

Lög um alþjóðleg viðskiptafélög voru samþykkt á Alþingi 19. mars 1999. Forsaga laganna er sú að á árinu 1996 hóf Verslunarráð Íslands forathugun á möguleikum Íslands sem vettvangs fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi. Var niðurstaða þeirrar forathugunar sú að möguleikar Íslands fælust helst í að einbeita sér að uppbyggingu alþjóðlegrar viðskiptastarfsemi á þeim sviðum sem landið hefði eitthvað fram að færa sem skapaði sérstöðu, t.d. í viðskiptum með sjávarfang.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu skipaði forsrh. verkefnisstjórn í mars 1997 til að vinna að athugun á möguleikum þess að efna til sérhæfðrar alþjóðlegrar viðskiptastarfsemi utan lögsögu á Íslandi. Byggðist frv. það sem síðan varð að lögum um alþjóðleg viðskiptafélög, nr. 31/1999, að meginstefnu til á starfi og tillögu verkefnisstjórnarinnar. Má segja að í þessu hafi falist tilraun til að laða að erlenda fjárfestingu til landsins með nýjum hætti og feta þannig í fótspor fjölmargra erlendra ríkja sem bjóða fyirtækjum ýmiss konar úrræði á sviði skatta til að laða að atvinnustarfsemi.

Á þessum tíma þurftu stjórnvöld enn fremur að horfa upp á að íslenska skattkerfið stóð halloka í samkeppni við erlend skattkerfi og starfsemi fyrirtækja var að flytjast úr landi og byggjast upp annars staðar. Í lögum um alþjóðleg viðskiptafélög er heimiluð starfsemi á afmörkuðum sviðum en mest áhersla er lögð á viðskipti með sjávarafurðir utan Íslands og hafa þau alþjóðlegu viðskiptafélög sem stundað hafa slík viðskipti haft mesta veltu þeirra félaga sem hlotið hafa starfsleyfi. Jafnframt var í upphafi horft til þess að í kringum starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga ættu að skapast mikil tækifæri fyrir ýmiss konar þjónustu, t.d. sölu á hugbúnaði, flutningum, vátryggingum og fjármálaþjónustu af ýmsum toga. Verkefnisstjórnin lagði mat á það hvaða áhrif löggjöf um alþjóðleg viðskiptafélög kynni að geta haft á tekjur ríkissjóðs. Taldi verkefnisstjórnin ekki óvarlegt að ætla að innan þriggja ára yrðu tugir fyrirtækja komnir á laggirnar.

Í athugasemdum með frv. því er varð að lögum um alþjóðleg viðskiptafélög var rakið að uppbygging slíkrar starfsemi mundi kalla á umfangsmikla markaðs- og kynningarstarfsemi sem væri lykilatriði þess að árangur yrði góður. Með það í huga var gerður samningur á milli viðskrn., Verslunarráðs Íslands og Fjárfestingarstofunnar um kynningu laganna. Til þeirrar kynningar var varið 44 millj. kr. á fjögurra ára tímabili. Ljóst er að sá kostnaður er nokkur miðað við takmarkaðan árangur en ekki má þó líta fram hjá því að kynningarstarfsemi þessara aðila laut ekki síður að kynningu á Íslandi sem góðum fjárfestingarkosti. Er því ekki hægt að líta svo á að fjármunir þessir hafi farið til spillis.

Eins og vikið hefur verið að var yfirlýstur tilgangur laganna sá að efla erlenda fjárfestingu hér á landi. Raunveruleikinn nú, rúmlega fjórum árum eftir samþykkt laganna, sýnir þó að það hefur ekki tekist sem skyldi. Alls hafa 14 fyrirtæki hlotið starfsleyfi frá því að lögin tóku gildi, eitt hefur skilað inn starfsleyfi og þrjú verið svipt starfsleyfi. Miðað við fyrirliggjandi skýrslur félaganna vegna ársins 2002 virðast eingöngu fimm félög af þeim tíu sem nú hafa útgefið starfsleyfi stunda starfsemi og er heildarvelta þeirra um 1,2 milljarðar kr. Heildarvelta á árinu 2001 var um 2 milljarðar en um 1,2 milljarðar á árinu 2000.

Vorið 1998 samþykkti ráðherraráð OECD skýrslu um aðgerðir til að stemma stigu við setningu nýrra skattalaga eða reglna sem haft gætu skaðleg áhrif á samkeppni ríkja. Öll aðildarríki OECD nema Lúxemborg og Sviss samþykktu skýrsluna. Sérstakri nefnd var falið að annast framkvæmd og eftirfylgni með tilmælum skýrslunnar. Allt frá árinu 2000 hafa lögin um alþjóðleg viðskiptafélög verið til skoðunar hjá nefndinni ásamt tæplega 60 mismunandi skattareglum í öðrum aðildarríkjum OECD.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur enn fremur haft lögin til skoðunar um nokkurt skeið á þeim grundvelli að lögin feli hugsanlega í sér óheimilan ríkisstyrk. Því hafa íslensk stjórnvöld harðlega mótmælt og liggur enn ekki fyrir niðurstaða þeirrar athugunar.

Vík ég nú að frv. því sem hér er til umræðu. Í frv. er lagt til að lög um alþjóðleg viðskiptafélög verði felld úr gildi 1. janúar 2008 og að ný starfsleyfi verði ekki gefin út frá og með 1. janúar 2004. Þykir rétt að gefa þeim aðilum sem þegar hafa fjárfest í atvinnustarfsemi á grundvelli laganna tækifæri til að aðlaga sig að þeirri ákvörðun að lögin verði afnumin. Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir að þau fyrirtæki sem afsala sér starfsleyfi geti starfað áfram sem hlutafélag eða einkahlutafélag en að þeim verði ekki gert að slíta félaginu eins og nú er gert ráð fyrir í lögunum. Lagt er til að það sama muni gilda ef starfsleyfi fellur niður við afnám laganna. Þykir þetta eðlilegt m.a. í ljósi þess að félögin hafa lagt í nokkurn kostnað við stofnun rekstrarins, enda er ekki gert ráð fyrir að við afsal eða brottfall starfsleyfis alþjóðlegs viðskiptafélags verði önnur breyting á rekstri þess en að það verði skattlagt með sama hætti og önnur hlutafélög.

Af framansögðu er ljóst að áhugi á þessu félagaformi er nokkuð langt frá því sem vonir stóðu til og áhrif á íslenskt atvinnulíf hafa ekki verið sem skyldi. Hverjar ástæður þess eru er erfitt að segja til um. Eins og þegar hefur komið fram var vandað mjög til undirbúnings við lagasetninguna og veglega staðið að kynningu á lögunum en áhuginn virðist samt hafa látið á sér standa. Ein meginástæða þess er sú að frá árinu 1999 hefur skattalegu umhverfi íslenskra fyrirtækja verið gjörbylt. Með lækkun á tekju- og eignarsköttum fyrirtækja sem samþykkt var árið 2001 var í raun stigið stórt skref í þá átt að gera lögin um alþjóðleg viðskiptafélög óþörf.

Hæstv. forseti. Þetta voru meginatriði frv. og legg ég til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.