Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:47:18 (1779)

2003-11-17 20:47:18# 130. lþ. 28.7 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það eru í sjálfu sér athyglisverðar upplýsingar ef það er skoðanamunur í stjórnarliðinu um þetta frv. og það er ekki stutt af öllum stjórnarliðum. Það er ákaflega gott að hafa hv. 11. þm. Reykv. s., Birgi Ármannsson, hér vegna mikillar þekkingar hans á málinu sökum fyrri starfa. Það er upplýsandi og fróðlegt.

Í sjálfu sér er ágætt að kynna Ísland. Ég ætla ekkert að segja að þessi kynning hafi öll verið til einskis. En það skiptir náttúrlega miklu máli hvernig landið er kynnt. Menn geta misstigið sig herfilega í þeim efnum. Sum landkynning er miklu verri en engin. Það var ekkert sérstaklega góð landkynning þegar Landsvirkjun og iðnrn. sameiginlega gáfu út bæklinginn um lægsta raforkuverð í Evrópu og fóru að dreifa honum til undirbúnings samningaviðræðunum alþjóðleg fyrirtæki. ,,Lowest energy prices in Europe``, stóð á forsíðu bæklingsins. Svo var hann að vísu innkallaður en einstöku menn eiga eintak af honum. (Viðskrh.: Hann gæti nú hafa leitt eitthvað gott af sér.) Ætli menn vildu ekki helst að sá bæklingur hefði aldrei komið út. Það var víst sendiráðið í Washington sem dreifði honum einna lengst.

Varðandi samkeppnisskilyrði atvinnulífs á Íslandi þá þarf Ísland að sjálfsögðu að bjóða fyrirtækjum vel samkeppnisfær starfsskilyrði, ekki endilega erlendum aðilum sem við erum að reyna að lokka hingað heldur okkar eigin atvinnulífi. Það er alveg ljóst. Við höfum aldrei talað gegn því, alla vega ekki ég þó að ég sé þeirrar skoðunar að við þurfum að hafa skatttekjur ríkissjóðs til að reka samneysluna.

En fyrirtæki horfa til mjög margs fleira en skattumhverfis þegar þau velta fyrir sér hvar þau eigi að staðsetja sig. Mér hugnast miklu betur að reyna að hvetja fyrirtæki til þess að koma og setja hér starfsemi á fót vegna þess að hér sé hagstætt umhverfi að öllu leyti, hér sé vel menntað vinnuafl, hér sé stöðugleiki, hér sé stoðkerfi samfélagsins, hér sé búið vel að fjölskyldum. Kannanir sýna að skynsamir forsvarsmenn í atvinnulífinu líta miklu frekar til þessara þátta en hinna hráu fjármálalegu atriða einna eins og skattareglna.