Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:49:34 (1780)

2003-11-17 20:49:34# 130. lþ. 28.7 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:49]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Herra forseti. Já, það skiptir máli hvernig málið er kynnt. Ég get uppfrætt hv. 5. þm. Norðaust. um að það var einmitt á þessum nótum sem kynningarstarfsemin fór fram. Menn bentu að sjálfsögðu á að hér væri vel menntað vinnuafl, sérfræðingar á heimsmælikvarða á ýmsum sviðum, góð lífskjör að ýmsu öðru leyti og góð lífsskilyrði að flestu leyti. Þetta voru mikilvæg atriði í sambandi við kynningarstarfsemina.

Síðan þurfa menn líka að hafa eitthvað að bjóða í skattalegu samhengi og það var rétt ákvörðun á sínum tíma að gera það með þessum hætti. Núna kann málið að horfa að einhverju leyti öðruvísi við vegna þess að tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður jafnmyndarlega og raun ber vitni. Eignarskatturinn er á útleið og vonandi verða fleiri jákvæðar breytingar á skattaumhverfi atvinnulífsins hér á landi á næstu árum sem gera það að verkum að við höfum möguleika á því að vera samkeppnishæf í öllum skilningi. Ég held að við verðum að hafa í huga að þessi kynningarstarfsemi var alhliða vegna þess að eins og hv. þm. benti á horfa skynsamir forsvarsmenn fyrirtækja ekki bara á skattalega þáttinn heldur fjölmarga aðra þætti líka.