Alþjóðleg viðskiptafélög

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 20:51:21 (1781)

2003-11-17 20:51:21# 130. lþ. 28.7 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[20:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við erum tiltölulega sammála um þetta svona í aðalatriðum nema kannski áhersluna á hinn fjármálalega þátt einan og sér. Það er nefnilega oft talað þannig af hálfu mikilla hægri manna að það eina sem skipti máli séu skattar og að dúndra þeim bara nóg niður. Það er jafnvel gefið lítið fyrir aðra þætti sem hafa áhrif eins og stoðkerfi samfélagsins. En það kemur bara í ljós þegar þetta er allt skoðað saman að ekki eru síður mikilvægir og jafnvel miklu frekar þeir þættir sem snúa að, við skulum segja, almennt hinni hliðinni, þ.e. því sem skatttekjurnar eru notaðar til. Það hefur áhrif á það hvar menn vilja setja niður atvinnulíf og hvar ekki, eins og þetta, að það sé hagstætt umhverfi fyrir starfsmennina að búa þá þar sem fyrirtækin staðsetja sig. Af hverju skyldi þetta vera? Ætli það sé ekki vegna þess að skynsamir stjórnendur vita að mestu verðmætin í fyrirtækjum eru yfirleitt þekkingin í höfðum starfsmannanna. Það er mikilvægt að starfsmennirnir séu ánægðir. Það er mikilvægt að það sé starfsmannafesta, að fólk sé ánægt og haldist í störfum hjá fyrirtækinu o.s.frv. Það gerist ekki nema allt umhverfið sé gott. Ég held því alveg hiklaust fram að menn hafi iðulega algerlega ofmetið skattaþáttinn eða aðra slíka en vanmetið annað.

Að vísu er það svo með öll Norðurlöndin að skattbyrði fyrirtækja er lág á Norðurlöndum í heild, meira að segja í Svíþjóð sem oft er talin mikið háskattaland. Það eru fyrst og fremst persónuskattar og veltuskattar sem þar eru háir. Svíum hefur tekist bærilega þrátt fyrir að vera með talsvert hærri skatta á fyrirtæki en Íslendingar að laða að sér alþjóðlega fjárfestingu t.d. í rafeindaiðnaði, tölvuiðnaði. Þeir hafa byggt lítinn sílikondal norðan við Stokkhólm, Kistu, og þar eru umsvifamikil fjölþjóðafyrirtæki. Það hefur svo sem gengið á ýmsu í þeim geira eins og við vitum. En þar segja menn ósköp einfaldlega: Það er ekki skattaþátturinn sem mestu máli skiptir þegar upp er staðið heldur hin almennu starfsskilyrði, hvernig búið er að starfsmönnunum o.s.frv.