Uppfinningar starfsmanna

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 21:11:01 (1784)

2003-11-17 21:11:01# 130. lþ. 28.8 fundur 313. mál: #A uppfinningar starfsmanna# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[21:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til langra ræðuhalda um þetta mál en ætla að nýta mér þann möguleika í andsvari að koma afstöðu minni á framfæri og gera athugasemdir eða spyrja hæstv. ráðherra. Ég held að hér sé hið þarfasta frv. á ferð og í raun og veru löngu tímabært að taka á þessum málum. Mér er kunnugt um að upp hafa komið tilvik þar sem þetta hefur orðið tilefni mikilla umræðna á vinnustöðum þar sem vísindamenn hafa starfað og óljóst hefur verið hver átti hvað, þeir eða viðkomandi stofnun eða fyrirtæki. Í öllum aðalatriðum er sú skynsamlega leið farin að hafa hér tiltölulega einfaldan lagaramma og styðjast þar við það sem sambærilegt er í nágrannalöndum okkar.

Það sem vekur athygli mína er að það er nokkuð langur aðdragandi að gildistöku laganna, þ.e. að þau taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2005. Ég vil spyrja hvort það sé vegna þess að menn telji að það þurfi svo langs undirbúnings við eða hvort þetta sé hugsað sem einhvers konar aðlögun eða frestur fyrir þá aðila sem koma til með að verða fyrir áhrifum af lögunum. Þá vakna upp álitamál um það hvernig ganga eigi frá lagaskilunum við svona aðstæður, hvort þá beri að skilja þetta svo að menn hafi þarna um árs aðlögunartíma en síðan taki lögin gildi og gildi þá frá og með fyrsta degi, verði bindandi gagnvart þeim aðstæðum sem þá eru uppi í samskiptum starfsmanna og vinnuveitenda þeirra. Það er einföld og hrein nálgun en auðvitað hefði hugsanlega komið til greina að láta lögin taka gildi strax en frá og með einhverjum tíma gagnvart verkefnum sem þegar væru í gangi. Það er ekki hægt að útiloka að í einhverjum mæli séu í gangi kannski samningar og vinnustaðafyrirkomulag, hefðir eða slíkt sem er með nokkuð öðrum hætti en síðan verður reglan á grundvelli laganna. Það er svona spurning um þessi lagaskil sem væri fróðlegt að heyra aðeins meira um frá ráðherranum.