Uppfinningar starfsmanna

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 21:15:16 (1786)

2003-11-17 21:15:16# 130. lþ. 28.8 fundur 313. mál: #A uppfinningar starfsmanna# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[21:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekkert um að það er mikil hugsun á bak við þessa útfærslu, enda þegar maður sér hverjir hafa þarna um vélað þá þarf nú ekki að hafa efasemdir um það að nefndin undir forustu Árna Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns og skipuð valinkunnum snillingum honum til viðbótar, að vísu allt karlmönnum, hefur ugglaust hugsað þetta allt mjög vel. En það eru augljóslega ýmis álitamál sem gætu komið upp í sambandi við það hvernig frá þessu er gengið gagnvart þegar gildandi samningum sem kunna að vera til staðar og spurningunni um aðlögunartíma, eða hvort lögin sem slík tækju gildi strax en einhvers konar undanþáguákvæði væru viðhöfð ef í gildi væru samningar sem stönguðust eitthvað á við þau.

Frumvarpið er þó auðvitað fyrst og fremst í eðli sínu réttarbót og styrkir stöðu uppfinningamannanna þannig að auðvitað vill maður ekki að einhver undanþáguákvæði yrðu til þess að rýra rétt þeirra umfram það sem lögin gefa tilefni til og verða í framtíðinni.

Ég held að þetta sé tvímælalaust gott skref hvað varðar uppfinningar starfsmanna hjá fyrirtækjum eða hinu opinbera, þ.e. uppfinningamanna sem eru í vinnu hjá öðrum. En þá er auðvitað eftir stór hópur uppfinningamanna sem er í vinnu hjá sjálfum sér. Og þó að mér sé alveg ljóst að þetta frv. og þessi lög sem slík komi á engan hátt inn á þeirra aðstæður þá vil ég samt nefna þann hóp og hvetja eindregið til þess að staða slíkra manna verði líka skoðuð og hvernig hægt væri að bæta aðstæður þeirra, t.d. auðvelda þeim að gæta réttar síns, því mér sýnist nokkuð ljóst að staða þeirra verði á margan hátt enn þá erfiðari borið saman við þá uppfinningamenn sem eru vinnandi hjá öðrum því þeir hafa þó ákveðna vernd, ákveðna tryggingu fólgna í þessari löggjöf sem hinir hafa ekki og hafa oft engar aðstæður til að gæta réttar síns sjálfir.