Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:36:21 (1788)

2003-11-18 13:36:21# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁI (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Álfheiður Ingadóttir:

Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum hafa orðið miklar sviptingar á fjármálamarkaði og í efnahagslífi landsins. Eignarhald á öllum stærstu fyrirtækjum í landinu er á floti og menn vita ekki að morgni hjá hverjum þeir munu vinna að kvöldi. Eignarhaldið hefur færst á sífellt færri hendur og það er alveg sama hvar borið er niður, þróunin er alls staðar hin sama. Hér er vaxandi fákeppni, samþjöppun og hagnaðarsprenging, eins og berlega kom fram í umræðum um tryggingafélögin sem þingmenn Vinstri grænna stóðu fyrir á þinginu fyrir nokkru.

Þegar uppgjör viðskiptabankanna þriggja fyrir fyrstu níu mánuði ársins lágu fyrir tók steininn úr. Hagnaður bankanna þriggja þessa níu mánuði nam eftir skatta 11,7 milljörðum kr., 5 milljörðum kr. hjá Kaupþingi Búnaðarbanka, 4,1 milljarði kr. hjá Íslandsbanka og 2,6 milljörðum kr. hjá Landsbanka. Þessu til viðbótar voru hátt í 8 milljarðar kr. gjaldfærðir á afskriftareikning útlána hjá bönkunum sem þýðir að hagnaðurinn fyrir framlag á afskriftareikning var um 20 milljarðar kr. Ef svo heldur fram sem horfir þá verður hagnaðurinn á þessu ári 25 milljarðar kr.

Yfirlýst markmið stjórnvalda með sameiningu og einkavæðingu bankanna var að ná fram aukinni hagræðingu sem átti að skila sér í vasa neytenda. Samkeppni á markaði átti hér eins og víðar, í munni þeirra sem eru heittrúaðir á frjálsa samkeppni, að lækka vexti og stuðla að heilbrigðara fjármálalífi. En skyldi það vera raunin? Nei, á meðan hagnaður bankanna hefur stóraukist hafa þjónustugjöld ekki lækkað heldur hækkað, eins og Neytendasamtökin hafa sýnt fram á. Neytendasamtökin fullyrða reyndar að þjónustugjöld íslenskra banka séu þau langhæstu á Norðurlöndum.

Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta, hefur einnig gagnrýnt há þjónustugjöld og fákeppni í bönkunum. Í Morgunblaðinu 30. október sl. segir hann, með leyfi forseta:

,,Ég fæ ekki betur séð en þetta sé nánast einn banki.``

Virðulegi forseti. Þetta eru einkunnirnar sem fulltrúar neytenda og fjárfesta gefa einkavæðingu bankanna. Það er enginn munur á þjónustugjöldum, útlánastefnu eða vöxtum þessara svokölluðu samkeppnisaðila á markaði. Einkavæðingin og gríðarlegur hagnaður bankanna hefur þannig hvorki skilað neytendum lægri vöxtum né lægri þjónustugjöldum. Kannski er það vegna þess að venjuleg bankastarfsemi, þ.e. að stunda innlán og útlán og lifa af vaxtamuninum, er að verða algert aukaatriði í rekstri þessara svokölluðu viðskiptabanka. Þeir hafa í vaxandi mæli snúið sér að fjárfestingum á fjármála- og hlutafjármarkaði og eru komnir á kaf í atvinnureksturinn í landinu, jafnvel í áhættusaman og beinan samkeppnisrekstur við eigin viðskiptamenn. Viðskiptavinir bankanna spyrja sig auðvitað: Er þorandi undir þessum kringumstæðum að fara með áætlanir fyrirtækis míns og leggja fyrir samkeppnisaðilann, þ.e. bankann?

Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP-fjárfest\-ing\-ar\-banka, segir í Morgunblaðinu sl. sunnudag, með leyfi forseta:

,,Það getur vissulega orkað nokkuð tvímælis þegar bankar eru að fjárfesta í áhættusömum hlutabréfum á verðbréfamarkaði fyrir innlánspeninga. Held ég að þetta geti verið verst fyrir þá sjálfa, því þeir geta misst hlutleysið sem er svo mikilvægt í viðskiptabankastarfseminni.``

Undir þetta tekur Morgunblaðið í leiðara í gær og telur líklegt að þessi skipan verði endurskoðuð í ljósi fenginnar reynslu. Það er einmitt það sem Vinstri grænir hafa lagt til í frv. um fjármálafyrirtæki, þ.e. aðskilnað fjárfestingarlánastarfsemi og almennrar viðskiptalánastarfsemi.

Virðulegi forseti. Eftir stendur að það stefnir í 25 milljarða kr. gróða hjá bönkunum og almenningi ofbýður. Það er því ærið tilefni til að spyrja hæstv. viðskrh. eftirfarandi spurninga:

Telur ráðherra tilefni til aðgerða af hálfu ráðuneytis eða eftirlitsaðila í ljósi þessa gríðarlega hagnaðar?

Telur ráðherra að eðlileg samkeppni ríki milli viðskiptabankanna í ljósi þess að ekki bólar á viðleitni af þeirra hálfu til að keppa um viðskiptavini?

Telur ráðherra að einkavæðing bankanna hafi mistekist í ljósi þess að þjónustugjöld hafa heldur farið hækkandi, vaxtamunur breyst óverulega og þess að ekki verður séð að staða neytenda hafi batnað?

Telur ráðherra ástæðu til að huga að skýrari aðgreiningu á viðskiptabankastarfsemi annars vegar og fjárfestingarbankastarfsemi hins vegar í ljósi þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á afskipti bankanna af atvinnulífinu?